Um er að ræða tæki til loftvarna, sprengjukúlur og önnur skotfæri auk vopna sem ætluð eru til að granda skriðdrekum. Þetta er síðasta hernaðaraðstoðin sem Úkraínu stendur til boða frá Bandaríkjamönnum nema Bandaríkjaþing samþykki meiri fjárútlát.
Mikið hefur verið deilt um slíkt í þinginu síðustu vikurnar og lítið útlit fyrir að fari að rætast úr. Úkraínumenn biðla sífellt til þingmanna í Bandaríkjunum að halda aðstoðinni áfram, að öðrum kosti sé sigur Úkraínu gegn Rússum í mikilli hættu auk þess sem úkraínska þjóðarskútan gæti fljótt farið á hliðina.
Úkraínumenn njóta mikils stuðnings í þingliði Bandaríkjamanna en nokkrir þingmenn Repúblikana hafa krafist þess að frekari fjárútlát verði ekki samþykkt nema peningar verði einnig settir í aukna landamæravörslu við Mexíkó.