Neytendur

Skor­dýr í kryddi og gler­brot í súpu

Jón Þór Stefánsson skrifar
Krydd og villisveppasúpa hafa verið innkölluð vegna aðskotahluta.
Krydd og villisveppasúpa hafa verið innkölluð vegna aðskotahluta.

Krydd sem var flutt inn af Krónunni og selt í verslunum hennar hefur verið innkallað vegna þess að skordýr fannst í því. Þá hefur Sælkerabúðin ákveðið að innkalla súpu því að í henni fundust glerbrot.

Þetta kemur fram í tveimur ótengdum tilkynningum, annars vegar frá Matvælastofnun og hins vegar frá Sælkerabúðinni.

Kryddið sem var selt í Krónunni er framleitt í Bandaríkjunum og frá merkinu Bowl & Basket. Vöruheitið er Jalapeno Everything Bagel Seasoning.

Fram kemur að þeir sem versluðu kryddið geta skilað henni í Krónuna gegn fullri endurgreiðslu. Þá eru viðskiptavinir sem urðu fyrir óþægindum vegna þessa beðnir afsökunar.

Súpan sem Sælkerabúðin innkallaði var Villisveppasúpa, sem er seld í eins líters glerkrukkum. Innköllunin varðar einungis súpur með „best fyrir“ dagsetningunni 14.03.2024.

„Ástæða innköllunarinnar er að tilkynning barst um að glerbrot hafi fundist í vörunni. Líklegt er að um einangrað tilvik sé að ræða en viðskiptavinum sem hafa keypt vöruna er bent á að neyta hennar ekki heldur skila henni gegn fullri endurgreiðslu,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×