Um­fjöllun og við­töl: Kefla­vík - Hamar 100-88 | Kefl­víkingar höfðu betur gegn botnliðinu

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Vísir/Bára

Keflavík vann góðan tólf stiga sigur er liðið tók á móti botnliði Hamars í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld, 100-88.

Keflavík tók á móti Hamar frá Hveragerði í Blue höllinni suður með sjó þegar 12. umferð Subway deildar karla í körfubolta hóf göngu sína í kvöld.

Það voru gestirnir frá Hveragerði sem settu fyrstu stig leiksins á töfluna en þar var að verki Ragnar Nathanaelsson sem fékk vítið að auki en náði ekki að setja það niður.

Remy Martin setti niður þrist fyrir Keflavík og kom þeim yfir og þá forystu áttu heimamenn ekki eftir að láta af hendi.

Heimamenn í Keflavík spiluðu virkilega vel í upphafi leiks og voru varnarlega mjög traustir. Á meðan heimamenn settu niður sín skot var vörnin að halda virkilega vel og héldu heimamenn Hamri undir tíu stigum fyrstu rúmar sjö mínútur leiksins.

Gestirnir áttu fínann sprett undir lok fyrsta leikhluta og settu m.a. niður tvo þrista og náðu að laga stöðuna aðeins. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 31-17.

Hamar byrjaði annan leikhluta líkt og þeir byrjuðu þann fyrsta með að setja niður fyrstu stig leikhlutans en aftur var það Remy Martin sem svaraði fyrir heimamenn.

Um miðbik annars leikhluta komust heimamenn í 44-27 þegar nýr leikmaður þeirra, Danero Thomas setti niður gott skot en hann tók skónna af hillunni og samdi við Keflavík stuttu fyrir þennan leik eftir að hafa fyrir áramót lagt skónna á hilluna þá sem leikmaður gestana frá Hveragerði.

Keflavík voru alltaf skrefinu á undan Hamri sem virtust eiga fá svör við leik heimamanna og þá sérstaklega Remy Martin sem setti 18 stig í fyrri hálfleiknum gegn þeim. Heimamenn fóru inn í hálfleik með 52-37 forystu.

Hamar byrjaði síðari hálfleikinn þokkalega og voru að sækja góð stig og náðu að saxa vel á Keflvíkinga þegar leið á leikhlutann. Hamar náðu að minnka muninn niður í tíu stig en við það virtist kvikna í heimamönnum sem settu bara í fluggírinn og rifu muninn upp aftur í 24 stig.

Þegar þriðja leikhluta lauk voru heimamenn með 21 stiga forskot, 81-60 en Sigurður Pétursson átti magnaðan endasprett í þessum leikhluta.

Í fjórða leikhluta virtust heimamenn aðeins slaka á og gestirnir gengu á lagið og náðu flottu áhlaupi á heimamenn. Þegar um rúmlega tvær mínútur voru eftir voru Hamarsmenn búnir minnka muninn niður í átta stig en Keflavík voru sterkari undir lokinn og náðu tökum á leiknum aftur og siglu honum örugglega í höfn, 100-88.

Af hverju vann Keflavík?

Virkilega heilsteypt og fagmannleg frammistaða frá heimamönnum lengst af. Slökuðu örlítið á undir lok leiks en það kom ekki að sök.

Hverjir stóðu upp úr?

Remy Martin var eins og oft í vetur á eldi fyrir heimamenn. Hann setti niður 33 stig, tók 8 fráköst og gaf einnig 5 stoðsendingar.

Sigurður Pétursson fær líka kall (e. shout) hérna fyrir frábæran lokahnút á þriðja leikhluta.

Franck Kamgain var langbestur í liði gestana og setti niður 34 stig.

Hvað gekk illa?

Hamar fékk bara framlag frá fjórum leikmönnum í kvöld sem er aldrei góðs viti. Hefðu viljað fá framlag frá fleirrum.

Hvað gerist næst?

Keflavík fær Íslandsmeistara Tindastóls í heimsókn í næstu umferð.

Hamar bíður ekkert síðra verkefni en þeir fá Val í heimsókn.

„Peningar eru greinilega ekki vandamál“

Halldór Karl Þórsson, þjálfari Hamars.Vísir/Hulda Margrét

„Sáttur með margt. Það voru svona tvö hlaup sem að við vorum að klikka á að klára en við vorum náttúrulega bara að fá inn nýjan leikstjórnanda í morgun. Við náðum bara í hann á vellinum og ákváðum að keyra með hann í Hveragerði og koma svo aftur nokkrum tímum seinna með hann hérna. Eðlilegt þegar að svona stórt púsl eins og nýr leikstjórnandi kemur inn fyrir minna en 24 tímum að þá verður smá flæði. Hann á eftir að læra á alla leikmennina og hvað þeir vilja. Hann var bara að sjá Ragnar (Nathanaelsson) í fyrsta skipti á ævinni núna og þetta er kannski leikmaður sem að þú þarft að læra aðeins inná bara eins og aðrir, hvernig hverjir vilja kötta og hverjir vilja skjóta. Draco er bara búin að vera með okkur í eina og hálfa viku þannig að við áttum ekkert von á einhverri áramótabombu hérna. “

Það stakk svolítið að skoða lögfræðina eftir leik en aðeins fjórir leikmenn Hamars skiluðu stigum á töfluna.

„Við eigum að fá meira frá Björn Ásgeiri og hann veit það sjálfur, ekkert að skjóta á hann eða neitt en hann er betri leikmaður en hann sýndi hér í kvöld og átti bara off dag og verður bara flottur í næsta leik vonandi. Ungir strákar sem að koma inn og þurfa bara að þora að vera til en við eigum vonandi bara eftir að fá inn eitt púsl í viðbót til að koma með eitthvað smá framlag líka og þetta púslast aðeins og bara vont að þetta gerist á röngum tíma og þá sérstaklega fyrir lið sem er í sömu aðstöðu og við erum. Við erum búnir að vera vinna í því dag og nótt að vera púsla saman nýju liði. Sumir eru ekki að koma tilbaka og sumir eru að hætta en samt ekki hætta. Víddir í þessu sem við áttum kannski ekki alveg von á.“

Óvænta sögulínan fyrir þennan leik var kannski sú að Danero Thomas sem lagt hafði skónna á hilluna eftir fyrri hluta móts þá sem leikmaður Hamars var búin að rífa fram skónna og mætti sínu gamla félagi í kvöld sem leikmaður Keflavíkur.

„Hann setti þarna smá að hann væri hættur í tvær vikur og kom svo aftur tilbaka og það er bara hans mál. Við vorum ekki að setja okkur eitthvað upp á það að gera eitthvað meira drama heldur en er í gangi og búið að vera í gangi hjá okkur. Við óskum honum bara velfarnaðar hérna og hann má bara gera það mín vegna.“

Halldór Karl segist ekki hafa verið mjög hissa að sjá Danero Thomas taka skónna af hillunni og semja við Keflavík.

„Ég missti ekkert hökuna í gólfið. Ég hef heyrt að menn ætla bara að borga honum vel hérna og peningar eru greinilega ekki vandamál hérna þá afhverju ekki? Hann verður að taka það ef hann fær möguleikann á því og við ætlum ekkert að standa í vegi fyrir honum þar.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira