Handbolti

Stelpurnar okkar fóru með For­seta­bikarinn til for­setans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heldur hér á Forsetabikarnum við hlið nokkurra leikmanna íslenska landsliðsins. Leikmennirnir eru Hafdís Renötudóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Þórey Rósa Stefánsdóttir, Berglind Þorsteinsdóttir, Perla Ruth Albertsdóttir og Thea Imani Sturludóttir.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heldur hér á Forsetabikarnum við hlið nokkurra leikmanna íslenska landsliðsins. Leikmennirnir eru Hafdís Renötudóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Þórey Rósa Stefánsdóttir, Berglind Þorsteinsdóttir, Perla Ruth Albertsdóttir og Thea Imani Sturludóttir. @hsi_iceland

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, bauð íslenska kvennalandsliðinu í heimsókn á Bessastaði í tilefni af þátttöku þeirra á HM 2023 í handbolta.

Handknattleiksamband Íslands segir frá heimsókn stelpnanna á miðlum sínum en forseti Íslands hóf móttökuna með ávarpi þar sem hann þakkaði Íslenska landsliðinu fyrir þátttöku þeirra á HM. 

Guðni var viðstaddur leik íslenska liðsins þegar þær léku gegn Angóla í Stavanger 4. desember. Sagði hann meðal annars að með þátttöku á stórmóti væri markað fyrsta skref að enn frekari uppbyggingu kvennahandboltans á Íslandi.

Íslensku stelpurnar unnu Forsetabikarinn á mótinu með því að vinna leikinn um 25. sætið en í honum kepptu öll liðin sem tókst ekki að komast í milliriðlana. Það munaði bara einu marki að íslensku stelpunum tækist að fara upp úr sínum riðli á fyrsta stórmóti sínu í ellefu ár.

Íslenska liðið gerði jafntefli við Angóla í leiknum sem Guðni sá á heimsmeistaramótinu en sigur hefði dugað stelpunum til að komast áfram.

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ tók einnig til máls og þakkaði Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands fyrir boðið og stuðning hans við landslið Íslands í handbolta. Sagði Guðmundur að tekið væri eftir því innan aðildarþjóða handboltans að þjóðhöfðingi Íslands mætti til að styðja landslið Íslands á stórmótum.

Hér fyrr neðan má sjá svipmyndir frá heimsókninni og þar má sjá forseta Íslands með Forsetabikarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×