Mat vísindamanna er enn að ef að til eldgoss komi sé líklegast að það gjósi aftur á Sundhnúksgígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells.
„Það er hins vegar mikilvægt að rifja upp að kvikuhlaup enda ekki alltaf í eldgosi, eins og dæmi eru um í tengslum við virknina við Fagradalsfjall og eins í Kröflueldum,“ segir í tilkynningunni.
Þá er minnst á jarðskjálfta sem voru við Trölladyngju fyrir tveimur dögum, þann 3. janúar. Þeir urðu á þekktri jarðskjálftasprungu þar sem stærri skjálftar hafa orðið nokkrum sinnum áður, segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
„Engin merki eru um að þeir tengist kvikuhreyfingum beint. En, þær miklu landbreytingar sem hafa orðið á Reykjanesi í tengslum við kvikugangana í Fagradalsfjalli, landrisi við Svartsengi, kvikuganginn við Sundhnúk 10. nóvember og eldgosið 18. desember hafa mælst á öllu vestanverðu Reykjanesinu og hafa áhrif á skjálftavirkni á svæðinu öllu,“ segir í uppfærslunni.