Viðskipti innlent

Icelandair leigir eina Airbus til

Árni Sæberg skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Vísir/Vilhelm

Icelandair og SMBC hafa undirritað samning um langtímaleigu á Airbus A321LR þotu til afhendingar á fyrsta ársfjórðungi 2026. Þetta er fimmta Airbus-þotan sem Icelandair semur um langtímaleigu á við SMBC.

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Icelandair. Töluverða athygli vakti þegar Icelandair tilkynnti í fyrra að félagið hefði undirritað viljayfirlýsingu um kaup á þrettán flugvélum af gerðinni Airbus A321XLR og kauprétt að tólf flugvélum til viðbótar. Icelandair hefur um árabil verið dyggur viðskiptavinur Boeing, helsta keppinautar Airbus.

Í ofanálag við flugvélarnar 25 samdi Icelandair við SMBC um leigu á fjórum A321LR-þotum. Nú hefur ein til viðbótar bæst við.

„Það er mjög ánægjulegt að tilkynna um langtímaleigu á enn einni þotu frá SMBC, sem við höfum átt í góðu samstarfi við um árabil. Við höfum þegar hafið innleiðingu þessara öflugu flugvéla sem munu taka við af Boeing 757 vélunum. Þær munu skapa spennandi tækifæri og möguleika á nýjum fjarlægari áfangastöðum ásamt því styðja við sjálfbærnivegferð okkar,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×