Erlent

Bob fann þilið sem losnaði af Boeing-vélinni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rannsakandi á vegum samgönguöryggisyfirvalda skoðar gatið sem myndaðist.
Rannsakandi á vegum samgönguöryggisyfirvalda skoðar gatið sem myndaðist. AP

Kennari að nafni Bob fann íhlutinn sem losnaði af Boeing 737 Max 9 vélinni sem þurfti að snúa við skömmu eftir flugtak þegar gat myndaðist á skrokk vélarinnar.

Um var að ræða vél í eigu Alaska Airlines en atvikið átti sér stað á föstudag, í vél sem var á leið frá Portland í Bandaríkjunum til Ontario í Kanada. 

Flugmálayfirvöld vestanhafs kyrrsettu í kjölfarið allar vélar sömu tegundar með sama íhlut. Nokkrar eru komnar aftur í notkun en um 170 bíða enn skoðunar.

Allar Boeing 737 Max 9 vélar eru með jafn marga neyðarútganga en vélarnar eru nýttar á mismunandi hátt, sem gerir það að verkum að stundum þarf ekki að nota alla útgangana. Þá er nokkurs konar tappi (e. plug) settur í gatið í stað útgangs en það var hann sem virðist hafa rifnað af í umræddu flugi.

Yfirvöld hafa leitað tappans, sem er í raun þil, frá því á föstudag en greindu frá því í morgun að þilið hefði fundist í Portland, af kennara að nafni Bob. Reyndist það hafa lent í garðinum hans.

Þá hefur einnig verið greint frá því að áður en atviki átti sér stað hefðu viðvörunarljós varðandi þrýsting í farþegarýminu kviknað í þrígang, það er að segja í þremur öðrum flugferðum. Enn liggur hins vegar ekki fyrir hvort ljósin kviknuðu vegna þess að þilið var að losna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×