Handbolti

Ómar Ingi: Mér fannst við spila betur í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon er hér klemdur á milli tveggja varnarmanna Svartfjallalands.
Ómar Ingi Magnússon er hér klemdur á milli tveggja varnarmanna Svartfjallalands. Vísir/Vilhelm

Ómar Ingi Magnússon átti mun betri leik en á móti Serbum í fyrsta leiknum og var bæði markahæstur og stoðsendingahæstur í íslenska liðinu.

„Ég er fyrst og fremst mjög ánægður með sigurinn. Þetta var erfitt og aðeins of erfitt þarna í lokin. Það er mjög sterkt að klára þetta,“ sagði Ómar Ingi við Henry Birgi Gunnarsson eftir leikinn en Ómar var með sjö mörk og átta stoðsendingar í leiknum.

„Mér fannst við spila betur í dag og búa til flott færi fyrir okkur. Hann var kannski með aðeins of margar vörslur þarna,“ sagði Ómar um markvörð Svartfellinga sem tók mörg íslensk dauðfæri í kvöld.

„Mér fannst við spila fínt. Þetta var ekkert frábært en þetta var fínt. Við þurfum bara að klára færin betur,“ sagði Ómar.

Mætti Ómar reiður til leiks eftir slakan fyrsta leik?

„Já aðeins. Ég var alveg svekktur eftir fyrsta leik og vissi það að ég átti helling inni. Ég er bara ánægður með það að hafa spilað betur í dag. Við þurfum bara að halda áfram og vera klárir í næsta,“ sagði Ómar.

„Ungverjar verða erfiðir. Þeir eru stórir og miklir og með tvo risa línumenn. Þetta verður ágætis slagur,“ sagði Ómar.

Klippa: Viðtal við Ómar Inga eftir leik við Svartfjallaland



Fleiri fréttir

Sjá meira


×