Innlent

Kvikusöfnun heldur á­fram

Jón Þór Stefánsson skrifar
Frá fyrra gosinu við Sundhnjúkagíga norðan Grindavíkur.
Frá fyrra gosinu við Sundhnjúkagíga norðan Grindavíkur. Vísir/RAX

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi með svipuðum hraða og fyrir tvö síðustu gos. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu íslands, en þar segir að um sé að ræða niðurstöðu samráðsfundar vísindamanna sem haldinn var í morgun.

Þar segir að þegar kvikugangur myndast nálægt yfirborði, tognar á jarðskorpunni og land sígur yfir miðju kvikugangsins. Þá þrýstist jarðskorpan upp sitt hvoru megin við hann.

Fram kemur að reiknilíkön sem voru skoðuð á fundi dagsins sýni að GPS mælir í Svartsengi sé staðsettur á þeim stað í jaðri kvikugangsins þar sem land rís rétt á meðan gangurinn er að myndast. „Nú tveimur sólarhringum eftir að kvikugangurinn myndaðist ætti mælirinn í Svartsengi að byrja að sýna landsig ef kvikusöfnun væri hætt. Svo er ekki og því er ljóst að kvika er safnast fyrir líkt og áður.“

Í tilkynningunni kemur fram að hætta í tengslum við sprungur og að jarðvegur hrynji ofan í þær hafi aukist í austurhluta Grindavíkur frá því sem áður var.

Þá segir að nýr sigdalur hafi myndast austan við sigdalinn sem myndaðist þann tíunda nóvember. Nýi sigdalurinn er um 800 til 1000 metra breiður, en mesta sig í honum er um þrjátíu sentímetrar. Tekið er fram að dalurinn er enn að síga og dalurinn að víkka.

„Til samanburðar þá var sigdalurinn sem myndaðist 10. nóvember í gegnum Grindavík um 2 km breiður. Sigið innan hans var mest um 1,3 m,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×