Enski boltinn

Vill tug milljarða frá stjórnar­for­manni New­cast­le fyrir að vinna myrkra­verk prinsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Yasir Al-Rumayyan í golfi.
Yasir Al-Rumayyan í golfi. Richard Heathcote/Getty Images

Yasir Al-Rumayyan, formaður enska úrvalsdeildarfélagsins Newcastle United og LIV-mótaraðarinnar í golfi, gæti verið stefnt í einkamáli fyrir að „fylgja fyrirmælum krónprinsins Mohammed Bin Salman. Talið er að lögsóknin muni hljóða upp á rúma tíu milljarða íslenskra króna.

Al-Rumayyan er yfirmaður fjárfestingasjóðs Sádi-Arabíu, PIF, sem á 80 prósent hlut í Newcastle og rekur LIV-mótaröðina í golfi að mestu. Hann á að hafa fylgt fyrirmælum Mohammed Bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, er kom að meiða, þagga niðri í og á endanum eyðileggja fjölskyldu fyrrum yfirmanns leyniþjónustu Sádi-Arabíu, Dr Saad Aljabri.

Frá þessu greinir The Athletic en í frétt miðilsins segir að skjöl þess efnis hafi verið send á skrifstofur Al-Rumayyan víðsvegar um heim. Þar á meðal á St. James´ Park, heimavöll Newcastle.

Í skjölunum kemur fram að sótt hafi verið um leyfi til að bæta Al-Rumayyan og fleirum innan ríkistjórnar Sádi-Arabíu við dómsmál sem er nú þegar í gangi í Kanada. Ásakar Aljabri samlanda sína um að taka þátt í þriggja og hálfs árs herferð gegn prins Mohammed bin Nayef.

Bin Nayef var vikið úr embætti 2017 en hann átti að vera arftaki krúnunnar. Þess í stað hefur hann verið í varðhaldi frá árinu 2020.

Aljabri, fyrrverandi starfsmaður leyniþjónustu Sádi-Arabíu, flúði þaðan eftir að Bin Nayef var vikið úr embætti. Fyrst fór hann til Tyrklands og þaðan til Kanada. Árið 2021 var hann sakaður um að hafa dregið að sér milljónir Bandaríkjadala í hundraðatali. Aljabri neitar sök.

Fari svo að kanadískir dómstólar samþykki að bæta Al-Rumayyan og samstarfsmönnum hans við lögsóknina þá ætlar fjölskylda Aljabri að sækja um skaðabætur upp á tíu milljarða íslenskra króna.

The Athletic bar málið undir ensku úrvalsdeildina – sem leyfði kaup PIF á Newcastle United fyrir ekki svo löngu síðan – en forráðamenn deildarinnar vildu ekki tjá sig að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×