Skoðun

Sprengjur og tjöld

Sigmar Guðmundsson skrifar

Það er áhugavert að á sama tíma og sprengjum rignir yfir fjölskyldur örfárra tjaldbúa á Austurvelli virðist utanríkisráðherra hafa meiri áhyggjur af tjöldunum en sprengjunum. Það er sjálfsagt og eðlilegt að ræða með hvaða hætti fólk má mótmæla á Austurvelli en við verðum öll að reyna að setja okkur í spor þeirra sem óttast um líf ástvina sinna í látlausu sprengjuregni Ísraelshers. Kröfur þessa fólks um fjölskyldusameiningar eru ekki ósanngjarnar, óaðgengilegar eða líklegar til að skapa álag á innviði. Þessi hópur er of fámennur til þess.

Mér finnst að áhrifafólk í Sjálfstæðisflokknum mætti leggja sig meira fram við að skilja fólkið og sýna mannúð og mildi, frekar en að bregðast við fylgistapi með því að feta í fótspor Evrópskra poppúlista. VG þegir svo þunnu hljóði eins og venjulega og samþykkir með því hörkuna. Ég tek undir með nýjum borgarstjóra sem bendir á að við þurfum að sýna nærgætni þegar við tölum um fólk í svona viðkvæmri stöðu. Það gerði utanríkisráðherra ekki í færslu sinni.

Ef málaflokkurinn er stjórnlaus, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins heldur fram, þá er það ansi hörð gagnrýni á alla dómsmálaráðherra flokksins síðasta áratuginn. Að þingið hafi brugðist heldur ekki vatni hjá ríkisstjórn sem er með meirihluta á þingi. Sú smekkleysa að nota mótmæli nokkurra Palestínumanna á Austurvelli til að tala fyrir auknu fjármagni til lögreglu vegna skipulagðrar alþjóðlegrar brotastarfsemi ætti síðan að dæma sig sjálf. Það liggur ekkert fyrir um það að þessi hópur tengist slíkri starfsemi með nokkrum hætti. Þetta er fólk sem vill hjálpa ástvinum að flýja sprengjuregn. Það getur varla verið svo flókið að skilja það.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×