Fótbolti

AC Milan með dramatískan sigur eftir að Maignan var beittur kyn­þátta­níði

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mike Maignan varð fyrir barðinu á rasistum í kvöld.
Mike Maignan varð fyrir barðinu á rasistum í kvöld. EPA-EFE/GABRIELE MENIS

AC Milan vann gríðarlega dramatískan 3-2 sigur á Udinese í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Leikurinn tafðist um tíu mínútur vegna kynþáttaníðs í garð Mike Maignan, markmanns AC Milan.

Atvikið átti sér stað snemma leiks og tafði það leikinn um tíu mínútur.  Hvað leikinn varðar þá kom Ruben Loftus-Cheek gestunum yfir eftir rúman hálftíma en Lazar Samardžić jafnaði áður en fyrri hálfleik var lokið. Florian Thauvin skoraði svo það sem reyndist sigurmarkið eftir rétt rúman klukkutíma.

Á 83. mínútu jafnaði Luka Jović metin fyrir gestina frá Mílanó. Þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan tíma skoraði Noah Okafor sigurmarkið eftir undirbúning Oliver Giroud, lokatölur 3-2 gestunum í vil. 

Eftir dramatískan sigur er AC Milan í 3. sæit með 45 stig, sex á eftir toppliði Inter. Udinese er í 17. sæti með 18 stig, aðeins stigi fyrir ofan fallsæti.

Fyrr í dag fór annar leikur fram, þar vann Roma 2-1 sigur á Hellas Verona. Var þetta fyrsti leikur Rómverja  síðan José Mourinho var látinn taka poka sinn. Þá var þetta fyrsti leikur þeirra undir stjórn Daniele De Rossi. 

Rómverjar skoruðu tvö á sex mínútna kafla í fyrri hálfleik og lögðu þar með grunn að góðum sigri. Romelu Lukaku braut ísinn á 19. mínútu og stuttu síðar tvöfaldaði Lorenzo Pellegrini forystuna. Staðan 2-0 í hálfleik. 

Gestirnir fengu vítaspyrnu í síðari hálfleik en hún fór forgörðum. Michael Folorunsho minnkaði hins vegar muninn þegar stundarfjórðungur lifði leiks en nær komust gestirnir ekki, lokatölur 2-1. Roma nú í 8. sæti með 32 stig, aðeins tveimur minna en Fiorentina í 4. sætinu sem á þó leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×