Erlent

Börn geti ekki leikið sér nógu mikið úti

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Barn að leik.
Barn að leik. Vísir/Vilhelm

Börn og ungmenni í Bretlandi verða fyrir mikilli heilsufarsskerðingu þar sem þeim stendur ekki til boða að leika sér úti í sama mæli og áður í landinu. Hagsmunasamtök segja bresk stjórnvöld ekki horfa til mikilvægi þessa þegar kemur að skipulagsmálum.

Þetta kemur fram í umfjöllun breska blaðsins Guardian. Þar segir að þingmenn á breska þinginu hafi óskað eftir tillögum að því hvernig bæta megi heilsufar barna í landinu.

„Í samanburði við eldri kynslóðir, hefur líf barna breyst mikið, þau eru meira inni, meira einangruð og í meiri kyrrsetu. Allt vegna breytinga á umhverfinu úti fyrir,“ hefur Guardian eftir Alice Ferguson, talsmanni hagsmunasamtaka barna.

Hún segir bresk stjórnvöld geta snúið við þessari þróun með því að gera götur landsins öruggari fyrir börn og íbúahverfi barnvænni. Þannig geti börn leikið sér úti í meira mæli líkt og áður. Of mikil áhersla hafi verið lögð á umferð bíla undanfarna áratugi í landinu og of lítil á útivistarsvæði. 

Þá er þess getið að í nágrannalöndum Bretlands, líkt og í Þýskalandi, Noregi og Svíþjóð, séu við lýði sérstök lög sem snúi að lýðheilsu barna og skipulagi borga. Þá hafi borgir líkt og Barcelona, Freiburg, Ghent, Pontevedra, Rotterdam og París stigið mikilvæg skref í átt að barnvænni framtíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×