Innlent

Sex inn­brot inn á heimili í Ár­borg

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Lögreglan á Suðurlandi hefur fengið sex tilkynningar um innbrot inn á heimili í Árborg á síðustu vikum. Enginn hefur verið handtekinn vegna þeirra.
Lögreglan á Suðurlandi hefur fengið sex tilkynningar um innbrot inn á heimili í Árborg á síðustu vikum. Enginn hefur verið handtekinn vegna þeirra. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Lögreglunni á Suðurlandi hefur fengið tilkynningu um sex innbrot inn á heimili í Árborg í desember síðastliðnum og það sem af er janúar. Þar af voru þrjú þeirra á gamlárskvöld og nýársdagsmorgun. Svo virðist sem að í flestum tilfellum hafi verið að ræða þjófnaði á skartgripum og reiðufé. Málin eru í rannsókn hjá Lögreglustjóranum á Suðurlandi en enginn hefur verið handtekinn vegna þeirra.

En hvaða ráð á lögreglan til íbúa til að reyna að koma í veg fyrir innbrot sem þessi?

„Ráð til íbúa eru að gæta þess að læsa híbýlum sínum, ganga vel frá opnanlegum gluggafögum, hafa útiljós og lýsingar í lagi og auglýsa ekki á samfélagsmiðlum um væntanleg frí. Eins að huga vel að verðmætum í kringum hús og gæta þess að verðmæti sjáist ekki í gegnum glugga. Það er reynsla lögreglu að rafræn sönnunargögn sem fást úr til dæmis myndavélum hafa nýst vel við rannsókn á innbrotum, sjáanlegar myndavélar, límmiðar um öryggiskerfi og hreyfinemar í útiljósum hafa fælingarmátt,“ segir Jón Gunnar Þórhallsson, varðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurlandi og bætir við.

„Já, við minnum líka á vægi nágrannavörslu. Gott er að gera nágrönnum viðvart um að hús eða íbúð verði mannlaus og vera vakandi fyrir óvenjulegum mannaferðum í kringum hús nágranna. Tilkynna þegar um slíkt til lögreglu í gegnum Neyðarlínuna – 112. "

Jón Gunnar minnir íbúa á vægi góðrar nágrannavörslu og þá eigi aldrei að auglýsa á samfélagsmiðlum um væntanleg frí.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×