Samkvæmt nýrri skýrslu sem gerð var fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hafa fjölmargar EES-reglugerðir verið gullhúðaðar þegar þær voru innleiddar í íslensk lög.
Hvað er gullhúðun?
Gullhúðun er hugtak sem notað er þegar gengið er lengra en reglugerðin kveður á um þegar hún er innleidd.
Skáldað dæmi væri til að mynda EES-reglugerð sem segir að Íslendingur megi ekki eiga meira en fimm hunda. Þegar reglugerðin er innleidd segir hún hins vegar að Íslendingur megi ekki eiga meira en tvo hunda. Búið er að setja gull utan um reglugerðina og gera hana þannig þyngri.

Þingið verði að vita
Umhverfisráðherra segir að gullhúðun sé leyfileg en of oft hafi þingið ekki fengið að vita af því sem var í gangi.
„Það kemur fram að þvert á það sem á að vera, það á alltaf að segja þinginu frá því ef um gullhúðun er að ræða, sem geta verið málefnalegrök fyri, það hefur ekki allt gerst. Við erum að sjá dæmi um það að það hafa verið settar íþyngjandi reglur á atvinnulífið og fólkið í landinu sem að skekkir okkar samkeppnisstöðu og skapar bæði mikinn kostnað og ýmislegt sem er ekki æskilegt fyrir íslenska þjóð,“ segir Guðlaugur.
Byrjuð að vinna gegn gullhúðuninni
Nú verður unnið að því að afhúða þær gullhúðuðu reglur sem ekki eiga við rök að styðjast. Þá nær gullhúðunin til fleiri ráðuneyta. Guðlaugur vill að það verði skýrt fyrir öllum að þingið verði að vera meðvitað um þá gullhúðun sem á sér stað.
Utanríkisráðherra, sem sér um mál tengd EES, hefur skipað starfshóp um aðgerðir gegn gullhúðuninni. Hópinn leiðir Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.