Umræðan

Ríkið niður­greiðir starf­semi banda­rísks stór­fyrir­tækis

Erlendur Magnússon skrifar

Menningar- og viðskiptaráðherra ritar grein í Morgunblaðið 27. janúar þar sem hún fjallar um aðkomu ríkissjóðs að fjármögnun sjónvarpsþáttanna True Detective sem framleiddir eru af amerísku sjónvarpsstöðinni HBO max. Ef skilja má ráðherrann rétt þá var heildarkostnaður við gerð þessara sjónvarpsþátta 11.500 milljónir króna; það er reyndar ekki skýrt hvort það sé kostnaður sem féll til um heim allan eða sá kostnaður sem féll til á Íslandi. Samkvæmt lögum mun ríkissjóður Íslands endurgreiða 35 prósent af þeim framleiðslukostnaði sem fellur til á Íslandi.

Ef skilja má ráðherrann rétt að þessar 11.500 milljónir króna séu innlendur kostnaður, þá mun ríkissjóður niðurgreiða framleiðslu HBO max um 4.025 milljónir króna. Það eru drjúg útgjöld.

Að sjálfsögðu mun þessi velta HBO max hérlendis skila þjóðarbúinu beinum og óbeinum tekjum víða og af þeim mun ríkissjóður hafa tekjur í formi virðisaukaskatts, tekjuskatts af launum og atvinnurekstri og tryggingasjóðsgjalds. Ég hef hins vegar hvergi séð neina greiningu á því hverjar þær skatttekjur eru taldar vera sem ríkissjóði eru ætlað af hafa af þessari starfsemi og því hver nettó kostnaður ríkissjóðs mun verða af þessari niðurgreiðslu til HBO max. Það væri æskilegt ef slíkar upplýsingar yrðu teknar saman og þær gerðar opinberar, því í hvert sinn sem ríkissjóður stofnar til útgjalda er hann um leið að auka álögur á íbúa landsins og sömuleiðis er hann að draga úr mögulegum útgjaldum til annarra málaflokka, sem fólk kynni að telja mikilvægari.

Það að greiða HBO max 4 milljarða króna úr sameiginlegum sjóðum okkar, peningum sem verður þá ekki varið til annarra verkefna, getur vart talist til samneyslu. Slík inngrip inn í atvinnulífið fellur heldur ekki að viðurkenndum hagfræði kenningum um heppilegt atvinnuumhverfi.

Það á reyndar við um mest alla aðra atvinnustarfsemi í landinu, svo sem sjávarútveg, iðnað, verslun og þjónustu af hvaða tagi sem er að hún skilar þjóðarbúinu beinum og óbeinum tekjum og af þeim hefur ríkissjóður síðan skatttekjur. Ólíkt kvikmyndagerð fá hins vegar flest önnur fyrirtæki í landinu engar sambærilegar niðurgreiðslu af hálfu ríkissjóðs. Þvert á móti er sumum atvinnugreinum mismunað og þeim gert að greiða hærri skatta en öðrum, svo sem bönkum og útgerðarfélögum.

Hafa menn ekkert betra við peningana að gera?

Almennt er pólitísk sátt um að niðurgreiða ýmsa samneyslu svo sem heilbrigðisþjónustu, megin samgönguinnviði, löggæslu, menntun og félagslegan stuðning við þá sem standa höllum fæti, en við viljum í þeim efnum fá sem mest verðmæti út úr því fjármagni sem sett er í slíka samneyslu. Þá er það almennt viðurkennt í hagfræði að það sé óæskilegt að mismuna atvinnugreinum með niðurgreiðslum eða mismunandi sköttum, því slíkt leiðir til óhagkvæmni í fjárfestingum og dregur úr heildarverðmætasköpun í samfélaginu – því sem til skiptanna er til að greiða laun, standa undir framtíðar fjárfestingum og samneyslu.

Það að greiða HBO max 4 milljarða króna úr sameiginlegum sjóðum okkar, peningum sem verður þá ekki varið til annarra verkefna, getur vart talist til samneyslu. Slík inngrip inn í atvinnulífið fellur heldur ekki að viðurkenndum hagfræði kenningum um heppilegt atvinnuumhverfi til að hvetja til mestrar verðmætasköpunar í landinu. Er þá nokkur ástæða fyrir menningar- og viðskiptaráðherra til þess að hrósa sér og ríkisstjórninni fyrir þessar niðurgreiðslur til bandaríks stórfyrirtækis?

Höfundur er fjárfestir.


Tengdar fréttir

HBO segist vilja koma til Íslands fái Framsókn sínu framgengt

Í bréfi sem íslenskum stjórnvöldum barst í síðasta mánuði lýsir sjónvarpsstöðin og streymisveitan HBO yfir áhuga á því að taka upp heilu verkefnin á Íslandi. Til að svo verði, þarf hins vegar að verða af kosningaloforðum Framsóknarflokksins um að hækka hlutfall endurgreiðslu á sjónvarps- og kvikmyndaverkefni sem tekin eru á Íslandi. Framsóknarmenn ætla að halda málinu til streitu við gerð stjórnarsáttmála, en fjármálaráðherra hefur sagt hugmyndina óraunhæfa.




Umræðan

Sjá meira


×