Fyrir ári síðan skrifaði ég grein í Innherja undir fyrirsögninni Trumpaður heimur. Kjarni hennar var samningatækni Donalds Trumps og hvernig hann notar orðræðu til að færa mörk hins hugsanlega. Þá þóttu fullyrðingar hans um yfirtöku á Grænlandi jaðra við fáránleika. Í dag er sú hugmynd ekki lengur útilokuð, heldur hluti af raunverulegri umræðu um vald, áhrif og öryggishagsmuni Bandaríkjanna — hvort sem Dönum, Grænlendingum eða öðrum líkar betur eða verr.
Það sem flestum þótti óhugsandi fyrir ári síðan er orðið vel hugsanlegt í dag. Fjarstæða dagsins í dag getur breyst í stefnumál morgundagsins með síendurtekinni orðræðu.
Þetta er Trumpaður heimur.
Ég hef allt frá fyrri forsetatíð Donald Trumps notað hann sem dæmi í kennslu um sannfæringu: hvernig hægt er að hafa áhrif án þess að styðjast við rök í hefðbundnum skilningi. Þetta er ekki gagnrýni á Trump, heldur lýsing á breyttum veruleika. Ef hægt er að verða forseti Bandaríkjanna tvisvar sinnum með því að sniðganga rökhugsun, þá er það skýr vísbending um að við búum ekki lengur í þeim heimi sem skólabækurnar lýsa. Þetta er heimur þar sem útfærsla orðræðunnar sigrar rökræðuna.
Ekki einungis orðin tóm
Einn áhugaverðasti hugsuður sem ég hef kynnst á lífsleiðinni er bandaríski hagfræðingurinn og heimspekingurinn Deirdre N. McCloskey. Ég hitti hana í doktorsbúðum í Frakklandi þar sem doktorsnemar fengu tækifæri til að ræða hugmyndir sínar við fræðimenn frá Evrópu og Bandaríkjunum. McCloskey stóð upp úr í mínum huga. Hún, sem hét áður Donald, er einstakur hugsuður sem hefur alla tíð farið gegn ríkjandi hugmyndum innan hagfræði og vísindaheimsins almennt.
Eitt þekktasta rit hennar (hún hefur skrifað 25 bækur og um 500 fræðigreinar) er The Rhetoric of Economics (1998). Þar færir McCloskey rök fyrir því að jafnvel hörðustu vísindi séu í eðli sínu mælskulist (rhetoric). Tölur tala aldrei sínu máli; þær öðlast aðeins merkingu í gegnum frásögn, samhengi og sannfæringu. Hún hafnar þeirri hugmynd að mælskulist sé einungis blekking eða orðagjálfur. Sannfæring felur í sér samtal þess sem talar og þess sem hlustar — tilraun til að tengja rök, gildi og heimsmyndir.
Þegar Trump talar um Grænland er hann ekki að ræða landfræðilega staðreynd, heldur að smíða frásögn þar sem eignarhald verður að öryggismáli og öryggismál að siðferðilegri skyldu.
McCloskey bendir á að fræðimenn, jafnvel innan raunvísinda, noti myndlíkingar, innrömmun og áherslur til að draga fram ákveðna þætti á kostnað annarra. Markmiðið er ekki aðeins að lýsa veruleikanum, heldur að sannfæra. Þegar rökin duga ekki ein og sér, er gripið til kennivalds, stöðu og trúverðugleika. Þetta er ekki frávik frá vísindum — þetta er vísindaleg framkvæmd í mannlegu samhengi.
McCloskey heldur því fram að fjórðungur af þjóðarframleiðslu nútímahagkerfa sé hrein mælskulist — sannfæring í sölu, stjórnun og lögfræði. Nóbelsverðlaunahafinn Robert Shiller hefur jafnframt sýnt hvernig orðræða hreyfir markaði í kenningu sinni um Narrative Economics. Hugmyndin um að „staðreyndirnar“ tali sjálfar er ein rótgrónasta goðsögn samtímans.
Þegar Trump talar um Grænland er hann ekki að ræða landfræðilega staðreynd, heldur að smíða frásögn þar sem eignarhald verður að öryggismáli og öryggismál að siðferðilegri skyldu.
Þrjár stoðir sannfæringar
Hugmyndin um að sannfæring byggist ekki aðeins á staðreyndum á rætur að rekja til forn-Grikkja. Í Rhetoric Aristótelesar er greint á milli þriggja meginstoða sannfæringar: logos, pathos og ethos.
Logos vísar til röksemdafærslu og skynsemi — gagna, orsakasamhengis og rökrænnar uppbyggingar. Pathos snýr að tilfinningum áheyrenda: ótta, reiði, stolti eða samkennd. Ethos vísar hins vegar til trúverðugleika þess sem talar — hver hann er og hvort áheyrendur treysta honum.
Aristóteles taldi þessa þætti ekki keppinauta, heldur samtvinnaða. Engin orðræða er sannfærandi án þess að höfða að einhverju marki til tilfinninga og trúverðugleika, jafnvel þegar hún þykist byggja eingöngu á rökum. Eins og McCloskey sýnir hefur þessi innsýn lifað allar hugmyndir um „hlutlausa“ umræðu. Rök eru alltaf sett fram af tilteknum einstaklingum, í ákveðnu samhengi, fyrir ákveðinn hóp.
Í beinu samhengi við atferlishagfræðina þá hefur Trump kannski uppgötvað að sannleikurinn er ekki fundinn, hann er búinn til með því að þreyta hugann. Ef þú heyrir vitleysu nógu oft, hættir heilinn að berjast á móti.
Í þessu ljósi er mælskulist ekki tæki blekkingar, heldur lýsing á því hvernig menn sannfæra hver annan í raun. Spurningin er ekki hvort logos, pathos og ethos séu notuð, heldur hvernig — og með hvaða afleiðingum.
Uppgjöf rökhyggjunnar
Það sem gerir Donald Trump sérstakan í þessu samhengi er að logos — sem lengi var talinn burðarás lýðræðislegrar umræðu — er sá þáttur sem hann leggur minnst upp úr. Þetta gerir hefðbundnum fjölmiðlum og stjórnmálaútskýrendum erfitt fyrir. Þeir staðreyndatékka fullyrðingar Trumps í sífellu, þó slíkt skipti litlu sem engu máli fyrir hann sjálfan eða þá sem hann er að sannfæra.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stjórnmálamenn fara með fleipur en Trump hefur tekið þetta skrefi lengra. Rannsóknir sýna að Trump hefur náð einstökum árangri með því að hafna tæknilegu tungumáli sérfræðinga (logos) og byggja áhrif sín fyrst og fremst á ethos og pathos. Í rannsókn Bandicha og Khan (2025) á orðræðu Trumps í tengslum við kosningarnar 2024 kemur fram að tungumálið er ekki notað til að lýsa veruleikanum, heldur til að móta hann. Í beinu samhengi við atferlishagfræðina þá hefur Trump kannski uppgötvað að sannleikurinn er ekki fundinn, hann er búinn til með því að þreyta hugann. Ef þú heyrir vitleysu nógu oft, hættir heilinn að berjast á móti.
Trump beitir endurtekningum markvisst. Þetta er meðvituð aðferð til að skapa það sem í sálfræði kallast illusory truth effect — ímynduð sannleiksáhrif. Fullyrðingar sem eru endurteknar nægilega oft verða félagslegur sannleikur, óháð staðreyndum. McCloskey myndi segja að þetta staðfesti að sannleikurinn sé ekki hlutlæg stærð, heldur félagslegt samningsatriði.
Kjarninn í greiningu McCloskey er að hugmyndin um „hlutlausa umræðu“ sé goðsögn. Öll mannleg samskipti eru tilraun til sannfæringar. Mistök frjálslyndra lýðræðisríkja og stofnana hafa verið þau að trúa því að ef lagðar eru fram nógu margar skýrslur og tölfræðigögn, muni „sannleikurinn“ sigra sjálfkrafa.
Hugsanlega afhjúpar Trump þessa hugvillu.
Uppreisn trúverðugleikans
Samkvæmt Aristótelesi er ethos sá trúverðugleiki sem ræðumaðurinn hefur í augum áheyrenda. Hefðbundnir stjórnmálamenn byggja ethos sitt á sérfræðiþekkingu og reynslu. Trump byggir sitt á því að vera ekki hluti af kerfinu.
Með stöðugri tvíhyggju „við gegn þeim“ skilgreinir hann sjálfan sig sem eina vörn almennings gegn spilltri elítu. Þetta fellur að greiningu McCloskey: mælskulist snýst fyrst og fremst um traust. Trump hefur grafið undan ethos stofnana — fjölmiðla, vísindamanna og sérfræðinga — og skapað tómarúm sem hann fyllir sjálfur. Hann segir ósatt um staðreyndir, en áheyrendur upplifa hann sem „sannan“ (authentic) í afstöðu sinni.
Mistök frjálslyndra lýðræðisríkja og stofnana hafa verið þau að trúa því að ef lagðar eru fram nógu margar skýrslur og tölfræðigögn, muni „sannleikurinn“ sigra sjálfkrafa.
Einfalt mál, sterkt myndmál og áhersluorð á borð við „huge“, „disaster“ og „beautiful“ eru ekki tilviljun. Þau eru hönnuð til að kveikja tilfinningaleg viðbrögð — reiði, stolt eða ótta — fremur en rökræna úrvinnslu. Trump virðist skilja að tilfinningar eru ekki andstæða rökhugsunar, heldur forsenda hennar.
Tsykhovska (2025) greindi innsetningarræðu Trumps og bendir á hvernig hugtök fá nýja merkingu. Orð eins og „frelsi“ og „réttlæti“ eru tekin úr hefðbundnu samhengi og notuð til að réttlæta róttækar breytingar á stjórnkerfinu. Þetta er það sem McCloskey myndi kalla innrömmun (rhetorical framing); sá sem stjórnar skilgreiningunum, stjórnar umræðunni.
Baráttan um veruleikann
Donald Trump er ekki slys í sögunni, heldur rökrétt afleiðing af því sem Deirdre McCloskey hefur lengi varað við: að vanmeta mátt orðræðunnar.
Það má öllum vera ljóst hvað hann ætlar sér með Grænland þegar hann hefur síendurtekið hversu mikilvægt Grænland er fyrir varnarmál Bandaríkjanna. Það verður „sannleikurinn“ þannig að hvort sem hann gerir það með valdi, samningum eða blekkingum þá er búið að réttlæta aðgerðirnar. Réttlæting aðgerðanna í Venesúela var stríðið gegn eiturlyfjum þó að það hafi síðar komið í ljós, og Trump sagði berum orðum, að þær snérust fyrst og fremst um aðgengi að auðlindum.
Með því að einblína á staðreyndavillur Trumps hafa fjölmiðlar og fræðimenn misskilið eðli baráttunnar. Trump er ekki í rökræðum um hagtölur. Hann er í baráttu um hvað telst vera þekking og raunverulegt og hver hefur vald til að skilgreina það. Lýðræði byggir ekki aðeins á kosningum, heldur á sameiginlegum skilningi á því hvað telst vera staðreynd, rök og réttlæting. Trump hefur sýnt fram á að Logos án Pathos og Ethos er máttlaust í lýðræðisríki.
Lærdómurinn sem við getum dregið af McCloskey og Trump er þessi: Sá sem stjórnar tungumálinu, stjórnar veruleikanum. Ef andstæðingar popúlisma ætla að ná árangri, dugar ekki að mæta með fleiri súlurit og flettiglærur. Þeir þurfa að skilja að stjórnmál eru barátta um sögur.
Þegar traust á stofnunum og gögnum er horfið, er eina stýritækið sem eftir verður hrein valdbeiting eða algjört stjórnleysi. Það er sú brún sem „Trumpaður heimur“ leiðir okkur að.
Trump hefur sannað að í heimi upplýsingaóreiðu er það ekki endilega sá sem hefur rétt fyrir sér sem sigrar. Það er sá sem á bestu söguna. Og eins og er, er sagan hans Trumps sú eina sem heyrist.
Eftirmáli
Sagan kennir að heimar sem eru byggðir fyrst og fremst á orðræðu eru brothættir. Sovétríkin héldu áratugum saman uppi ímynd um styrk, framfarir og óumflýjanlegan sigur, þrátt fyrir að raunveruleikinn væri sífellt á skjön við frásögnina. Þegar bilið milli orðanna og veruleikans varð of sýnilegt til að brúa, hrundi kerfið að innan. Það sem féll var ekki aðeins ríki, heldur trúverðugleikinn sem hélt því saman.
Trump hefur mótað heim þar sem sannfæring vegur þyngra en sannprófun og ímynd gengur fyrir innviðum. Slíkur heimur getur haldið velli lengi, svo framarlega sem trúverðugleikinn helst óskoraður. En þegar ethos brestur — þegar frásögnin hættir að virka og raunveruleikinn verður óumflýjanlegur — verður hrunið skyndilegt og ófyrirsjáanlegt. Ímyndaðir heimar brotna sjaldan með krafti sleggjunnar; þeir gefa sig innan frá þegar sprungurnar verða of margar.
Þegar traust á stofnunum og gögnum er horfið, er eina stýritækið sem eftir verður hrein valdbeiting eða algjört stjórnleysi. Það er sú brún sem „Trumpaður heimur“ leiðir okkur að.
Höfundur er forseti Akademias.
