Frakkar eru Evrópumeistarar í handbolta karla eftir sigur á Dönum, 33-31, í framlengdum úrslitaleik í Lanxess Arena í Köln í dag. Franska liðið er bæði ríkjandi Evrópu- og Ólympíumeistari.
Leikurinn var frábærlega leikinn og gríðarlega spennandi allan tímann. Danir voru með undirtökin lengst af, þökk sé frábærri frammistöðu Emils Nielsen í markinu. Hann varði 22 skot, þar af sextán í fyrri hálfleik.
Ludovic Fabregas var markahæstur Frakka og skoraði markið sem tryggði þeim framlengingu, 27-27. Staðan eftir fyrri hálfleik hennar var jöfn, 29-29. Dika Mem, sem hafði klikkað á fimm fyrstu skotunum sínum, skoraði næstu tvö mörk og steig heldur betur upp á réttum tíma.
Mikkel Hansen minnkaði muninn úr vítakasti þegar rúm mínúta var eftir, 31-30, en Elohim Prandi skoraði í næstu sókn Frakklands og tryggði liðinu svo gott sem sigurinn, 31-30. Mathias Gidsel minnkaði muninn í eitt mark þegar tíu sekúndur voru eftir, 32-31, en Yannis Lenne skoraði 33. og síðasta mark Frakka og gulltryggði þeim sigurinn, 33-31.
Fabregas skoraði átta mörk fyrir Frakklands og Nedin Remili fimm. Lenne, Dylan Nahi og Prandi skoruðu fjögur mörk hver. Samir Bellahcene varði sextán skot í franska markinu (36 prósent).
Hansen skoraði níu mörk fyrir Dani, þar af sjö úr vítum, og Gidsel var með átta mörk úr átta skotum. Simon Pytlick skoraði fimm mörk.
Nielsen var maður fyrri hálfleiks en hann varði hvorki fleiri né færri en sextán skot í honum, eða 53 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.
Bellahcene byrjaði rólega í franska markinu og varði sitt fyrsta skot ekki fyrr en á 19. mínútu. Hann varði hins vegar vel seinni hluta fyrri hálfleiks, alls sex skot (þrjátíu prósent).
Frakkland komst í 6-4 eftir þrjú mörk í röð en Danmörk átti þá sinn besta kafla í leiknum, skoraði fimm mörk gegn engu og komst þremur mörkum yfir, 6-9. Frakkar skoruðu næstu þrjú mörk og jöfnuðu og það eftir lifði fyrri hálfleiks skiptust liðin á forystunni. Staðan í hálfleik var jöfn, 14-14.
Danir byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og skoruðu fyrstu þrjú mörk hans, 14-17. Frakkar skoruðu næstu tvö mörk og minnkuðu muninn í eitt mark, 16-17.
Frakkland minnkaði muninn sex sinnum í eitt mark en Fabregas jafnaði loks í 23-23 þegar sjö mínútur voru eftir. Kentin Mahé kom franska liðinu svo yfir, 25-24, með marki úr víti.
Nikolaj Jacobsen, þjálfari Danmerkur, tók leikhlé og bætti sjöunda sóknarmanninum við. Hansen skoraði tvö mörk í röð en Frakkland jafnaði í 26-26. Gidsel kom Danmörku aftur yfir og Remili skaut síðan í stöng. Niklas Landin var þarna kominn í danska markið í staðinn fyrir Nielsen sem náði ekki sömu hæðum í seinni hálfleik og þeim fyrri.
Franska vörnin stóð hins vegar frábærlega í næstu sókn Dana, þeir unnu boltann og Fabregas jafnaði í 27-27. Vörn Frakka stóð aftur vel í lokasókn Dana og því þurfti að framlengja.
Gangur hennar hefur verið rakinn. Þar stigu Mem, Prandi og Fabregas upp og Bellahcene varði gríðarlega mikilvægt skot frá Hansen í stöðunni, 30-29. Markvörðurinn er til þess að gera nýliði í franska liðinu og hafði aldrei spilað fyrir það þegar árið 2024 gekk í garð. En hann reyndist ein af hetjum Frakklands þegar uppi var staðið.
Þetta var fyrsti Evrópumeistaratitill Frakka síðan 2014 og sá fjórði í heildina.