Erlent

UN­RWA segir fjár­magnið munu þrjóta í lok febrúar að ó­breyttu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hungursneyð blasir við íbúum Gasa.
Hungursneyð blasir við íbúum Gasa. epa/Haitham Imad

Forsvarsmenn Palestínu-flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) segja stofnunina ekki munu getað aðstoðað íbúa á Gasa og viðhalda aðgerðum á svæðinu lengur en til loka febrúar ef framlög til hennar verða skert.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Sviss, Kanada, Hollandi, Bretlandi, Ítalíu, Ástralíu og Finnlandi hafa tilkynnt að þau muni stöðva fjárframlög til UNRWA á meðan rannsókn fer fram á ásökunum Ísraelsmanna um að starfsmenn stofnunarinnar hafi komið að árásum Hamas 7. október síðastliðinn.

Framlög ríkjanna níu námu 667,2 milljónum Bandaríkjadala árið 2022, tæplega 60 prósent heildarframlaga til stofnunarinnar það árið.

Philippe Lazzarini, forstjóri UNRWA, sagði í yfirlýsingu á laugardag að það væri afar óábyrgt að gera stofnunina alla og fólkið sem hún þjónaði ábyrg fyrir meintum brotum nokkurra einstaklinga.

Þá sagði Chris Gunness, fyrrverandi talsmaður UNRWA, í samtali við Al Jazeera í gær að stofnunin yrði væntanlega uppiskroppa með fjármagn innan nokkurra vikna.

„Skilaboð mín til Arabaríkjanna, sérstaklega Flóaríkjanna, eru: hvar eruð þið? Því þau eru að hagnast um milljarða á olíu á hverjum degi. Brot af þessum olíutekjum myndu nægja til að láta fjármögnunarvanda UNRWA hverfa á einni nóttu. Þetta siðferðilega óverjandi tómarúm sem Vesturlönd hafa myndað myndi fyllast afar fljótt,“ sagði hann. 

Örvæntingafyllsta fólks Mið-Austurlanda stæði andspænis hungursneyð og Arabaríkin þyrftu að láta til sín taka.

Ísraelsmenn hafa kallað eftir því að Lazzarini segi af sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×