Handbolti

Sandra ó­létt á HM: „Hleyp fram og kalla: Andrea! Sjáðu!“

Sindri Sverrisson skrifar
Sandra Erlingsdóttir á ferðinni í Forsetabikarnum á HM, í úrslitaleiknum gegn Kongó sem Ísland vann.
Sandra Erlingsdóttir á ferðinni í Forsetabikarnum á HM, í úrslitaleiknum gegn Kongó sem Ísland vann. IHF

Sandra Erlingsdóttir var í stóru hlutverki á sínu fyrsta stórmóti þegar Ísland lék á HM í handbolta í desember. Það sem aðeins hún og nánustu liðsfélagar og fjölskylda vissu, var að hún var einnig orðin ólétt að sínu fyrsta barni.

Sandra, sem er leikmaður Metzingen í Þýskalandi, greindi opinberlega frá óléttunni fyrir skömmu en hún á von á sér í byrjun ágúst.

Hún fékk sjálf gleðitíðindin úti í Noregi í desember, þegar Ísland var að hefja keppni á HM eftir að hafa spilað þar á fjögurra liða æfingamóti.

Herbergisfélaginn fyrstur til að fá fréttirnar

„Ég átti að vera byrjuð á blæðingum en var aðeins sein. Ég segi þá við Andreu [Jacobsen], liðsfélaga minn og herbergisfélaga; „Já, já, við erum að fara á HM. Ef líkaminn er einhvern tímann undir stressi þá er það núna.“ Ég var því ekkert meira að pæla í því.

Svo spilum við þessa þrjá leiki [á æfingamótinu] en ég sagði við Andreu að ef ég færi yfir 40 daga þá myndi ég taka óléttupróf. Daginn eftir síðasta leik [og rétt áður en HM hófst] var komið að því, svo ég tók próf og það gátu ekki komið dekkri, tvær línur á prófið,“ segir Sandra létt í bragði en líflegar lýsingar hennar má sjá í myndbandinu hér að neðan.

Klippa: Sandra mætt á HM þegar hún fattaði að hún væri ólétt

„Þetta var hálfátta um morguninn og ég hleyp fram og kalla: „Andrea! Sjáðu!“ Andrea var því sú sem fékk að vita þetta allra fyrst, á undan pabbanum og öllum. Svo hringdi ég mjög órómantískt þarna í smá panikki í Danna og lét hann vita að hann væri að fara að verða pabbi,“ bætir Sandra við og brosir en Danni sá er Daníel Þór Ingason, sem einnig er atvinnu- og landsliðsmaður í handbolta.

Píndi ofan í sig orku fyrir leiki

Þó að fyrstu vikur meðgöngu geti reynt mikið á þá virtist óléttan ekki há Söndru neitt og hún varð markahæst Íslands á HM með 34 mörk.

„Ég er rosa glöð að ég hafi ekki verið komin það langt að þetta bitnaði á mér á HM. Það var rétt í lokin sem að maður var kominn með smá ógleði, en þurfti samt kannski að borða kjöt klukkan ellefu af því að það var leikur klukkan þrjú. Manni varð smá flökurt við það. Ég spilaði rosa mikið á mótinu og þurfti á allri næringu að halda, á meðan að líkamann langaði kannski bara í ostaslaufu,“ segir Sandra sem valin hefur verið handknattleikskona ársins á Íslandi tvö síðustu ár.

Veit ekki hvernig ég gat látið þetta trufla mig svona lítið

Hún þurfti auðvitað líka að takast á við fréttirnar andlega, að mestu án fjölskyldu sinnar þar til að mótinu lauk. Þar hjálpaði stuðningur frá Andreu og Perlu Ruth Albertsdóttur sem einnig fékk að vita fréttirnar.

„Eftir á að hyggja þá veit ég eiginlega ekki hvernig ég gat látið þetta trufla mig svona lítið. Ég mætti bara í leiki, adrenalínið var auðvitað ótrúlega mikið og ég í þokkabót komin rosalega stutt, og með alla Íslendingana uppi í stúku, þá náði maður alltaf að gleyma sér. 

Það var helst í síðustu tveimur leikjunum í Forsetabikarnum, þegar liðið átti bara almennt erfitt með að mótívera sig, að maður ætti erfitt með að mótivera sig. Þá var maður farinn að sofa lítið og geta lítið borðað, en ég held ég hafi komist þokkalega frá þessu móti verandi ólétt,“ segir Sandra sem endaði á að vinna Forsetabikarinn með íslenska liðinu sem þar með hafnaði í 25. sæti.

Fleiri hlutar úr viðtalinu við Söndru birtast á Vísi í dag og á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×