Á vef Umhverfisstofnunar segir að fyrirkomulagið verði í gildi alla daga vikunnar frá 20. júní til 15. september.
Á þeim tíma muni allir gestir sem koma að Landmannalaugum á eigin vegum milli klukkan átta og þrjú þurfa að bóka bílastæði fyrir fram. Stefnt sé að því að opna fyrir bókanir um miðjan mars.
Þjónustugjald miðast við gjaldskrá Umhverfisstofnunar, en veittur er 40% afsláttur í ár. Gjaldið miðast við fjölda sæta í bíl og er á bilinu 450 til 4500 krónur. Rútur og aðrir ferðaþjónustuaðilar þurfa ekki að bóka fyrir fram í sumar, en munu þó þurfa að greiða þjónustugjald ef komið er inn á svæðið á milli kl. 8 og 15.
Spá vaxandi álagi
Fram kemur að tilgangur þess að gripið sé til þjónustugjaldsins sé að draga úr umferðarteppu og öngþveiti sem myndast á ákveðnum tíma dags á aðkomuleið og bílastæðum við Landmannalaugar á sumrin. Að meðaltali hafi komið rúmlega þrjú hundruð bílar á dag að Landmannalaugum síðasta sumar.
Álagið hafi verið svo mikið að bílastæði við Landmannalaugar hafi fyllst fyrir hádegi nær alla daga og fólk því lagt bílum sínum á vegöxlum og utan vega sem hafi valdið álagi á umhverfið.
Bílum hafi að auki verið lagt á öllum mögulegum blettum með fram veginum inn að Landmannalaugum sem olli tilheyrandi þrengslum og umferðarhnútum. Það skapi jafnframt hættu á mjóum vegi.
Aðgerðin sé því fyrst og fremst nauðsynleg til að draga úr álagi á umhverfi Landmannalauga. Án inngrips sé viðbúið að vandinn muni einungis vaxa enn frekar á komandi árum. Spáð sé 10-15% árlegri fjölgun ferðamanna til landsins.