Irena Sól Jónsdóttir ætlaði að skipta frá Keflavík til Njarðvíkur en skiptin gengu ekki í gegn þar sem undirskrift Keflavíkur var fölsuð á félagaskiptablaðinu. Málið hefur eðlilega vakið mikla athygli þar sem það hefur aldrei áður komið upp slíkt mál hér á landi.
Stjórn körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur vildi ekki tjá sig við Vísi fyrr í dag en hefur nú gefið frá sér yfirlýsingu á Facebook. Þar segir:
Stjórn Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur harmar þau vinnubrögð sem höfð voru varðandi félagsskipti leikmanns Keflavíkur þegar skil á félagsskiptaeyðublaði til KKÍ áttu sér stað.
Við hörmum að hafa brugðist trausti nágranna okkar en samstarf okkar hefur alltaf verið faglegt og byggt á virðingu. Vinnubrögð þessi eru okkur ekki sæmandi og eru ekki til eftirbreytni. Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur biður alla hlutaðeigandi afsökunar.
Fyrir hönd körfuknattleiksdeildar;
Halldór Karlsson, formaður KKD UMFN
Irena Sól stefndi á að skipta frá Keflavík yfir til Njarðvíkur þar sem systir hennar, Kristjana Eir, er aðstoðarþjálfari. Þar sem skiptin gengu ekki gegn hefur Irena Sól ákveðið að leggja skóna á hilluna.