Lífið

„Mamma, ég á eftir að deyja ungur“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Skarphéðinn er yngsti sonur Steinunnar og Kristjáns og sést hér með móður sinni og bræðrum á góðri stundu.
Skarphéðinn er yngsti sonur Steinunnar og Kristjáns og sést hér með móður sinni og bræðrum á góðri stundu. Aðsend

„Fólk er hrætt við ræða um dauðann, skiljanlega. En samt er það nú þannig að það er bara tvennt sem við getum stólað á í þessu lífi; við fæðumst og við deyjum. Þess vegna finnst mér sjálfsagt að ræða þessa hluti. En ég skil samt svo vel að fólki finnist það erfitt,“ segir Steinunn Rósa Einarsdóttir móðir Skarphéðins Andra Kristjánssonar sem lét lífið í bílslysi á Holtavörðuheiði árið 2014, þá einungis átján ára gamall.

Á þessum tíma var ekki búið að taka í gildi lög sem kveða á um að Íslendingar verða sjálfkrafa líffæragjafar við andlát. Skarphéðinn hafði engu að síður gert aðstandendum sínum ljóst þegar hann lifði að hann myndi vilja gefa líffæri sín ef eitthvað kæmi fyrir. Steinunn segir það hafa skipt sköpum. Það leiddi til þess að fimm einstaklingar fengu nýtt og betra líf.

Sjálfkjörinn sáttasemjari

Skarphéðinn var yngstur þriggja sona þeirra Kristjáns S. Ingólfssonar og Steinunnar Rósu Einarsdóttur. Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur árið 1996 og þar ólst Skarphéðinn upp.

Skarphéðinn var einstakur gleðigjafi að sögn Steinunnar.Aðsend

Í minningargrein sem rituð var um Skarphéðinn á sínum tíma er þess minnst að Skarphéðinn var duglegur að heimsækja heimahagana fyrir austan og þá sérstaklega Barðsnes, bæinn sem Ingólfur afi hans ólst upp á.

„Skarphéðinn var sjálfkjörinn sáttasemjari. Alltaf að hugsa til þess að allir væru vinir. Það var hans ævistarf að gleðja alla í kringum sig. Hann átti auðvelt með að kynnast fólki enda glaðvær fjörkálfur eða fiðrildi. Hann var alltaf til í að prófa eitthvað nýtt. Hann æfði sund, fótbolta, badminton, skylmingar, júdó, rallíkross, alltaf efnilegur en fyrir honum virtist mest um vert að vera hluti af hópnum. Hann stundaði nám við Borgarholtsskóla eftir grunnskóla.“

Vorið áður en Skarphéðinn lést hóf hann störf í Brautarholti í Skagafirði við sauðburð og minkabú. Honum þótti vistin svo góð í Skagafirðinum að hann fluttist á Sauðárkrók um haustið til að stunda nám við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra í vélstjórn.

„Hann var sprelligosi,“ segir Steinunn.

„Hann var vinamargur, og vildi allt fyrir alla gera. Og hann var með svo stórt hjarta. Ég veit að það er kannski klisja að segja þetta, en svona var hann. Vinir hans sakna þess ofboðslega mikið í dag að geta ekki leitað til hans og fengið ráð hjá honum. Hann var með tattú á síðunni: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þér og þeim gjöra.” Viðhorfið hans var: „Komdu fram við aðra eins og þú vilt að sé komið fram við þig."

Skarphéðinn var staðráðinn í að verða vélfræðingur eins og eldri bróðir sinn.

„En það var eitt sem svo skrítið; hann sagði alltaf: „Mamma, ég á ekki eftir að vera gamall. Ég á eftir að deyja ungur.“

Vilji hans var skýr

Skarphéðinn hafði áður komið því skýrt á framfæri að ef eitthvað kæmi fyrir hann þá myndi hann vilja að aðrir fengu líffærin hans. Þetta var, eins og áður segir, áður en allir Íslendingar urðu sjálfkrafa líffæragjafar.

„Og þess vegna var hann búinn að fylla út svona kort, sem hann var með í veskinu sínu. Hann var alveg staðráðinn í því að hann vildi gefa líffærin sín. Við höfðum alltaf rætt rekar opinskátt um þessi mál hérna innan fjölskyldunnar. Pabbi strákanna var líka duglegur að gefa blóð og tók þá oft með sér. Þeir hafa síðan haldið áfram að vera blóðgjafar.

Steinunn telur mikilvægt að fólk taki samtalið og geri aðstandendum sínum ljóst hver afstaða sín er til líffæragjafar.Vísir/Egill

Tíminn var naumur

Þann 12.janúar árið 2014 varð harður árekstur við Fornahvamm í Norðurárdal. Toyota Corolla bifreið sem Skarphéðinn ók var ekið í norðurátt lenti í árekstri við bíl með hestakerru sem ekið var í suðurátt. Snjór var yfir veginum, fokið hafði í skafla og nokkuð hvass vindur. Vörubílinn var rúmlega fjórum sinnum þyngri en fólksbifreiðin sem var ekið í gegnum skafl. Skarphéðinn missti stjórn á bílnum sem byrjaði í kjölfarið að rása til á veginum. Rann hún á hlið framan á vörubílinn sem reyndi að víkja til hægri og ók utan í vegrið.

Í Toyota bifreiðinni voru Skarphéðinn Andri, og unnusta hans, Anna Jóna Sigurbjörnsdóttir.

Anna Jóna lét lífið í slysinu, 17 ára að aldri.

„Lögreglan bankaði upp á hjá okkur og tilkynnt okkur að Skarphéðinn væri með leiðinni á þyrlu upp á spítala,“ rifjar Steinunn upp.  „Og þá fengum við að vita að Anna Jóna hafi látist á sama tíma.

Þegar við komum upp á bráðamóttökuna á spítalanum var okkur vísað inn í herbergi. Okkur var sagt að hann væri alvarlega slasaður, og væri haldið sofandi. Hann hafði fengið höfuðhögg, en það sá samt ekki á honum,“ segir Steinunn og bætir við:

„En við höfum aldrei verið reið þeim sem keyrði á bíl Skarphéðins. Við finnum mikið til með honum að hafa lent í þessu hræðilega slysi."

Skarphéðni var haldið sofandi í öndunarvél í alls fimmtán daga.

„Þann 27.janúar var okkur síðan sagt að hann væri með drep í framheilanum. Ef hann myndi vakna þá myndi hann aldrei verða sá sama manneskjan og áður. Þarna vorum við búin að skiptast á að sitja á spítalanum í rúmar tvær vikur og við vorum orðin gjörsamlega úrvinda.

En þetta var svolítið sérstakt; um leið og læknirinn tók mig til hliðar og sagði mér þetta, þá var þar líffæragjöfin það fyrsta sem ég nefndi. Að Skarphéðinn hefði viljað gefa líffæri sín. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvers vegna þetta var það sem kom strax upp í hugann á mér á þessari stundu. Kannski var það af því að þetta var það eina sem ég hafði einhverja stjórn á í þessum aðstæðum,“ segir Steinunn og bætir við:

„Við sátum síðan hjá honum þarna um kvöldið, og sáum þegar allt fór upp á tækjunum. Þannig að við vorum hjá honum þegar hann dó.“

Skarphéðinn var úrskurðaður látinn gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi þann 28.janúar árið 2014. 

„Í kjölfarið var haft samband við líffærateymið úti í Svíþjóð til að athuga hvort líffærin hans samsvöruðu þeim sem biðu eftir líffæragjöf. Þegar það er staðfest þá kemur teymi erlendis frá með sjúkraflugi og sér um að sækja líffærin og fara með þau út aftur,“ segir Steinunn en ljóst var að það þurfti að hraðar hendur og gera allt tilbúið fyrir líffæraflutninginn. Sem dæmi má nefna að það mega einungis líða fjórar klukkustundir þar til hjarta er grætt í nýjan einstakling. 

„Ég man þetta svo skýrt, þegar við vorum á leiðinni upp á spítalann til að kveðja hann. Þetta var snemma um morguninn. Á leiðinni þangað mættum við þremur bílum sem voru að fara frá spítalanum og voru á leiðinni út á flugvöll. Þar biðu tvær flugvélar eftir þeim, sem síðan fluttu líffærin hans Skarphéðins til Oslóar og Stokkhólms. Þetta var eitthvað svo magnað að sjá þetta, við höfðum ekki haft hugmynd um að það væri svona mikið umstang í kringum þetta allt. En þarna birti svolítið yfir deginum. Að sjá hversu mikilvægu gjafir Skarphéðins Andra voru.“

Í dag eru liðin tíu ár frá því að Skarphéðinn lét lífið, einungis 18 ára gamall.Aðsend

Gott að vita að hjartað slær enn

Nokkrum mánuðum seinna fékk fjölskyldan að vita hvað hefði orðið um líffæri Skarphéðins. Nýru hans fóru til tveggja karlmanna á fimmtugs og sextugsaldri. Hjá öðrum þeirra mátti litlu muna.

„Hann var víst kominn alveg á síðasta sólarhring. En okkur skilst að ígræðslan hafi gengið mjög vel og það var mjög góð samsvörun,“ segir Steinunn. Karlmaður á fertugsaldri fékk lifrina hans Skarphéðins og karlmaður á sextugsaldri fékk lungun.

Það var síðan 16 ára piltur sem hjartað hans Skarphéðins.

„Við fengum að vita að sá piltur hefði verið orðinn mjög veikur undir það síðasta,“ segir Steinunn og bætir við að það sé afskaplega falleg tilhugsun að gjöf Skarphéðins hafi nýst á þennan hátt.

„Bróðir hans Skarphéðins sagði á sínum tíma að það væri svo „svo gott að vita að vita að hjartað hans Skarphéðins væri enn að slá.“

Steinunn bendir jafnframt á að það sé einstaklingsbundið hvað virki fyrir hvern og einn þegar tekist er á við sorgarferlið.

„Ég á til dæmis erfitt með að heyra fólk segja klisjur eins og „Þeir deyja ungir sem guðirnir elska.“ En fyrir öðrum þá hjálpar það að heyra þetta. Sumum finnst gott að tala um hlutina, en svo eru aðrir sem bara geta það ekki. Maður er alltaf að leita að einhverjum tilgangi með því sem gerist í lífinu. Og í þessu tilfelli voru fimm manns sem fengu nýtt og betra líf,“ segir hún.

„En ég finn samt sem áður alveg jafn mikið til, sorgin er ekkert minni. En þetta veitti mér huggun og þetta gaf mér heilmikið. Ekki síst vegna þess að ég vissi að þetta var ósk Skarphéðins. Þetta var hans vilji. Hefði ég vitað það, þá er ég ekki viss um hvað ég hefði gert í þessum aðstæðum. Fyrir mér, þá var þetta ljós í myrkrinu. Fyrir mér var þetta einhverskonar haldreipi. En það þýðir ekki að það sé upplifun allra, og ég skil það að sjálfsögu alveg.“

Fyrir nokkrum árum fór Steinunn á ráðstefnu á vegum norrænna samtaka um líffæragjöf.

„Þar hitti ég meðal annars föður sem hafði misst barnið sitt, sem hafði verið á biðlista eftir líffæragjöf. En svo hitti ég líka, og spjallaði við líffæraþega, og það var algjörlega magnað. Það var eitthvað svo gott og fallegt að vita af þeim.“

Steinunn telur mikilvægt að fólk taki samtalið og geri aðstandendum sínum ljóst hver afstaða sín er til líffæragjafar.

„Það mikilvægasta er að taka afstöðu; hvort sem þú vilt vera líffæragjafi eða ekki, hvort sem þú vilt gefa sum líffæri en ekki önnur eða öll líffærin þín. Mín afstaða er algjörlega þannig að ég get bjargað þó það væri ekki nema bara einni manneskju sem því að gefa líffæri úr mér, þá er það þess virði. Af því að í kringum þessa einu manneskju eru svo margir aðrir, allir aðstandendurnir sem þú ert að bjarga líka frá sorg.“

Öll í appelsínugulu

Janúarmánuður er alltaf erfiður tími fyrir fjölskylduna.

„Vinir Skarphéðins eru líka vinir miðjustráksins okkar. Þeir eru duglegir að koma og heimsækja okkur og við tölum saman. Við erum opin og við höldum minningunni um Skarphéðinn á lofti. Það er svo mikilvægt. En desember er janúar er alltaf alveg hrikalega erfiður tími,“ segir Steinunn og bætir við:

„En við höldum alltaf upp á afmælisdaginn hans Skarphéðins þann 1. mars. Við eldum uppáhaldsmatinn hans; foldaldakjöt með ostasósu og kartöflum, matinn sem Anna Jóna og Skarphéðinn elduðu 11. janúar, daginn áður en þau lentu í þessu hörmulega slysi.

Þann 29. janúar klæðist fjölskyldan síðan öll appelsínugulum klæðnaði.

„29. janúar er dagurinn sem Skarphéðinn  varð líffæragjafi og umræðan um líffæragjöf á Íslandi varð mjög mikil í framhaldinu. Við fáum oft að heyra að Skarphéðinn sé „líffæragjafinn. “ Litur líffæragjafa er að vísu grænn en ástæða þess að við völdum appelsínugula litinn er sá að við fundum enga aðra daga á þessum tíma þar sem appelsínugulur er notaður. Og okkur fannst það viðeigandi, þessi skæri litur í myrkrinu."

29. janúar er appelsínugulur dagur hjá þeim Steinunni og Kristjáni, og hinum í fjölskyldunni.Aðsend

Steinunn fær oft hnút í magann þegar hún sér fréttir af banaslysum, þá ekki síst þegar ungt fólk á í hlut.

„Og þá kemur líffæragjöfin svo oft upp í hugann; ætli þau hafi verið búin að ræða þetta við sína nánustu?“

Og henni er mikið í mun um að halda umræðunni um líffæragjöf á lofti.

„Þó það leiði ekki nema bara til þess að einhver einn segi við sína nánustu: „Ég vil vera líffæragjafi,“ þá er það heilmikið. Það getur skapað frekari umræður og haft margföldunaráhrif.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×