Erlent

Eftir­lýst í Rúss­landi vegna sovéskra minnis­varða

Samúel Karl Ólason skrifar
Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, og aðrir ráðherra Eystrasaltsríkja eru eftirlýstir í Rússlandi.
Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, og aðrir ráðherra Eystrasaltsríkja eru eftirlýstir í Rússlandi. AP/Omar Havana

Yfirvöld í Rússlandi hafa gefið út handtökuskipun á Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands. Taimar Peterkop, nokkurskonar ráðuneytisstjóri ríkisstjórnar Eistlands er einnig eftirlýstur í Rússlandi en talskona utanríkisráðuneytis Rússlands segir þau eftirlýst vegna niðurrifs á sovéskum minnisvörðum.

Þetta er í fyrsta sinn sem yfirvöld í Rússlandi gefa út handtökuskipun á erlendan þjóðarleiðtoga. Ráðherrar í Lettlandi eru einnig eftirlýstir í Rússlandi, vegna niðurrifs á minnisvörðum í Lettlandi. Ráða- og embættismenn víða í Austur-Evrópu eru nú eftirlýstir í Rússlandi.

Kallas, sem hefur setið í embætti frá janúar 2021, hefur verið ötull stuðningsmaður Úkraínumanna í átökum þeirra við Rússa og hefur verið harðlega gagnrýnin á Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og ríkisstjórn hans.

Í frétt RIA fréttaveitunnar, sem er í eigu rússneska ríkisins, segir að Kallas hafi ítrekað gerst sek um „Rússafóbíu“ og að hún hafi sagt Rússland ógna öryggi Evrópuríkja. Þá er hún einnig sögð hafa lýst yfir vilja til að leiða Atlantshafsbandalagið til átaka við Rússland og viljað einangra Rússland.

Hún er einnig sögð hafa stutt eyðileggingu sovéskra minnisvarða í Eistlandi og um að hafa kallað eftir því að Rússum verði meinaðar vegabréfsáritanir í Evrópu.

Þá segir í grein RIA að hún hafi lýst yfir vilja sínum til að breyta stjórnarskrá Eistlands á þann veg að fólki sem reki rætur sínar til Rússlands og Belarús, verði meinað að taka þátt í kosningum.

TASS fréttaveitan, sem er einnig í eigu rússneska ríkisins, segir dómsmálaráðherra, fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra Lettlands einnig eftirlýsta. Það er vegna niðurrifs á sovéskum minnisvörðum í Lettlandi.

María Sakaróva, talskona utanríkisráðuneytis Rússlands, hefur lýst því yfir að Kallas og aðrir verði að svara fyrir brot sín gegn minningu þeirra sem hafi frelsað fólk frá fasisma og nasisma. Þá segir hún þessar handtökuskipanir eingöngu vera upphafið.

Óttast innrás Rússa í framtíðinni

Pútín hefur verið harðorður í garð Eystrasaltsríkjanna að undanförnu og hefur hann meðal annars sakað ríkisstjórnir þeirra um að reyna að reka fólk sem rekur rætur sínar til Rússlands úr landi.

Í því tilfelli var hann líklega að vísa til nýrra reglna í Lettlandi um að rússneskir ríkisborgarar sem vilji búa eða vinna þar í landi þurfi að standast próf í lettnesku.

Sjá einnig: Láta ekki ógna sér með stórri æfingu NATO

Þá var tilkynnt í desember að um 1.200 rússneskum ríkisborgurum yrði vísað úr landi, því þau hefði ekki sótt um endurnýjun á dvalarleyfi fyrir frest í samræmi við nýju reglurnar.

Ráðamenn við Eystrasalt hafa á undanförnum vikum lýst yfir áhyggjum varðandi það að þau ríki séu í hættu. Óttast þau möguleg átök við Rússa í framtíðinni og hafa gert samkomulag um að byggja upp varnir á landamærunum ríkjanna við Rússland og Belarús.

Samkomulagið er sagt fela í sér byggingu sex hundruð neðanjarðarbyrgja og annarra varnarvirkja, auk þess sem ríkin myndu auka sameiginlega getu sína þegar kemur að stórskotaliði og auka varnir sínar að öðru leyti.

Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litháens, sagði nýverið við blaðamenn að Úkraínumenn væru að vinna tíma fyrir önnur ríki eins og Eystrasaltsríkin.

Leyniþjónusta Eistlands gaf það út í morgun að yfirvöld í Rússlandi séu að undirbúa sig fyrir átök við Vesturlönd innan áratugar. Hægt væri að koma í veg fyrir það með hernaðaruppbyggingu. Reuters hefur eftir Kaupo Rosin, yfirmanni stofnunarinnar, að þetta byggi meðal annars á því að Rússar hafi ákveðið að tvöfalda fjölda hermanna á landamærum Rússlands við Finnland og Eystrasaltsríkin.

Rosin segir ekki miklar líkur á árás frá Rússlandi til skamms tíma, vegna innrásarinnar í Úkraínu en ríki Evrópu þurfi að undirbúa sig fyrir langvarandi ögranir frá Rússlandi. Án undirbúnings og uppbyggingar aukist líkur á stríði í framtíðinni.


Tengdar fréttir

Herir Evrópu standa á brauðfótum eftir áratuga niðurskurð

Frá því kalda stríðinu lauk á tíunda áratug síðustu aldar hafa ráðamenn í Evrópu varið sífellt minni fjármunum til varnarmála og hergagnaframleiðslu. Vopnabúr Evrópu eru svo gott sem tóm og getan til hergagnaframleiðslu lítil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×