Þetta segir Hólmfríður Guðmundsdóttir, annar eigenda Curvy.is og Stout, sem báðar eru í húsnæðinu sem kviknaði í í Fellsmúla í kvöld.
Fríða, eins og hún er kölluð, fékk fyrstu fréttir af brunanum frá starfsmönnum verslananna um klukkan hálf sex en þeir voru fljótir að rýma, læsa og koma sér út.

„Þær stóðu svo bara úti og voru að fylgjast með. Ég kem síðan þarna og átta mig á því að það hafði gleymst að loka einni eldvarnarhurð og fékk leyfi til að fara inn. Það var enginn reykur en lykt,“ segir Fríða þakklát.
Tímasetningin sé hins vegar óheppileg; útsölur nýbúnar og vorvörurnar farnar að streyma inn, bæði í Curvy.is og Stout, sem er fyrir karla og var opnuð í september.
„Það var sama sagan þar; við vorum á fullu þar í dag að taka upp nýja sendingu og það er soldið súrt.“
Að sögn Fríðu er ekki útlit fyrir að bruninn hafi bein áhrif á rýmið sem verslanirnar eru í; þykkur steinveggur aðskilji þær og svæðið þar sem eldurinn blossaði. Það eigi hins vegar eftir að koma endanlega í ljós hvort það tekst að ráða að niðurlögum eldsins í nótt og hver staðan verður á morgun.
Tryggingafélagið hugðist senda menn með búnað á vettvang strax í kvöld en slökkviliðið tók fyrir það vegna umfangs aðgerða. Fríða segir fulltrúa tryggingafélagsins hins vegar munu mæta strax í fyrramálið til að meta stöðuna.
„Búðirnar verða lokaðar á morgun en við sjáum til hvort við getum opnað á laugardaginn,“ segir Fríða en hún sé hóflega bjartsýn. „Á morgun förum við bara í að meta tjónið og bjarga því sem hægt er að bjarga, undirbúa það að hreinsa út og vera svo bara með góða brunaútsölu svo það sé hægt að byrja upp á nýtt.“
Hún segir þetta vissulega áfall en það sé ekkert annað í stöðunni en að horfa fram á við.
„Maður brettir bara upp ermarnar og heldur áfram, það er bara svoleiðis.“