Sport

Carl Lewis líkir nýjum lang­stökks­reglum við apríl­gabb

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carl Lewis í langstökkskeppninni á Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 1984.
Carl Lewis í langstökkskeppninni á Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 1984. Getty/David Cannon

Carl Lewis er einn besti langstökkvari sögunnar. Það sem hann er ekki er aðdáandi breytinga á reglum í langstökki sem Alþjóða frjálsíþróttasambandið hefur nú boðað.

Langstökkið hefur alla tíð verið stokkið af uppstökksplanka og stökkvararnir þurfa að hitta á réttan stað til að fá stökkið sitt gilt. Þar má ekki miklu skeika.

Margoft hafa því frábær stökk verið dæmd ógild vegna þessa að langstökkvarinn fór millimetra fram yfir plankann. Sumir hafa líka tapað dýrmætum sentímetrum af því að þeir stukku upp of framarlega.

Nú ætlar Alþjóða frjálsíþróttasambandið að breyta uppstökksreglunum í langstökki og kynna til leiks sérstakt uppstökkssvæði.

Keppendur fá því ákveðið svæði til að stökkva upp á en stökkið þeirra verður síðan mælt nákvæmlega frá því sem langstökkvarinn stökk upp. Með því minnka verulega líkurnar á því að stökk verði dæmd ógild enda þarf þá ansi mikinn klaufagang til að hitta ekki á miklu stærra uppstökkssvæði.

Carl Lewis varð fjórum sinnum Ólympíumeistari í langstökki og tvisvar sinnum heimsmeistari. Hann tjáði sig um nýju reglurnar.

„Þú verður að bíða með aprílgöbbin til 1. apríl,“ skrifaði Carl Lewis á samfélagsmiðilinn X.

Það er ljóst á þessum orðum að hann er ekki mikill aðdáandi nýju reglnanna. Hann er ekki sá eini og þykir flestum þetta vera alltof róttæk breyting á þessari klassísku grein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×