Lífið

Ísrael muni frekar draga sig úr keppni

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Fulltrúi Ísraela á sviði í keppninni í fyrra.
Fulltrúi Ísraela á sviði í keppninni í fyrra. Sarah Louise Bennett/EBU

Svo gæti farið að Ísrael muni draga sig úr keppni í Eurovision fari svo að Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) meti sem svo að lag landsins í keppninni sé of pólitískt. Þetta hefur ísraelska dagblaðið ynet eftir stjórnendum ísraelska sjónvarpsins.

Ástæðan er sú að eitt þeirra laga sem til greina kemur að verði framlag Ísrael í ár ber heitið „October Rain“ og vísar með beinum hætti til mannskæðrar árásar Hamas liða í suðurhluta Ísrael þann 7. október síðastliðinn.

Rúmlega 1200 Ísraelsmenn létust í árásinni sem hrinti af stað mannskæðum árásum Ísraelsmanna á Gasa. Lagið er á ensku, utan tveggja lína sem eru á hebresku.

Áður hefur komið fram að hin rússnesk ættaða Eden Golan verði fulltrúi Ísrael í keppninni. Það á hinsvegar eftir að velja lag fyrir söngkonuna og er October Rain eitt þeirra laga sem koma til greina.

Í frétt ísraelska miðilsins kemur fram að forsvarsmenn KAN hafi hist á sérstökum fundi til að ræða þann möguleika að lagið verði dæmt úr leik af EBU. Fullyrt er að sú ákvörðun hafi verið tekin að draga Ísrael frekar úr Eurovision verði það niðurstaðan, frekar en að breyta orðalagi í laginu eða skipta um lag.

Rifjað er upp að Georgíu hafi árið 2009 verið meinuð þátttaka í keppninni þegar landið sendi lagið „I Don't Want to Put In,“ sem vísaði með beinum hætti til Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta. Hið sama var uppi á teningnum þegar Hvíta-Rússlandi var meinuð þátttaka árið 2021.

Haft er eftir stjórnendum KAN að forsvarsmenn stöðvarinnar eigi í samtali við EBU vegna málsins. Áður hefur EBU gefið út í tvígang að Ísraelsmönnum verði ekki meinuð þátttaka í keppninni vegna árása landsins á Gasa, þar sem tugþúsundir almennra borgara hafa látist. Ástæðan sé sú að Eurovision sé ekki pólitísk keppni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×