Sport

Kona vildi stöðva jarðar­för Kelvins Kiptum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kelvin Kiptum fagnar hér sigri í Lundúnamaraþoninu.
Kelvin Kiptum fagnar hér sigri í Lundúnamaraþoninu. EPA-EFE/TOLGA AKMEN

Keníski maraþonhlauparinn Kelvin Kiptum verður borinn til grafar í dag en ung kona reyndi að koma í veg fyrir jarðarförina.

Kiptum var á góðri leið með að verða ein allra stærsta frjálsíþróttastjarna heims og setti heimsmet í maraþonhlaupi á síðasta ári þegar hann hljóp maraþon á tveimur klukkutímum og 35 sekúndum.

Hann lést í bílslysi í Kenía 12. febrúar síðastliðinn ásamt þjálfara sínum þegar þeir voru á leið á æfingu í undirbúningi Kiptum fyrir Ólympíuleikana í París.

Kiptum lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn en hann verður jarðaður í heimaþorpi sínu Chepsamo. Það má búast við miklum fjölda manns í jarðarförina enda mikil þjóðarsorg eftir að fremsti íþróttamaður þjóðarinnar lést aðeins 24 ára gamall.

Hin 22 ára gamla Edna Awuor Otieno vildi þó koma í veg fyrir að jarðarförin færi fram í dag því hún vildi láta taka DNA próf úr Kiptum til að sýna fram á það að hann væri faðir barnsins hennar. Stúlkan sem um ræðir er orðin eins árs og sjö mánaða gömul.

„Hinn látni hafði viðurkennt tilvist dóttur okkar og hafði hugsað vel um okkur þangað til hann lést,“ sagði Edna Awuor Otieno við Kenyan Nation

Dómstóll í Kenía hafnaði hins vegar beiðni hennar og bannaði henni líka að koma í jarðarförina. Stúlkubarnið má heldur ekki vera við jarðarför meints föður síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×