Á Austfjörðum er spáð vestan- og norðvestan hríð og verður vindhraði allt að 23 metrar á sekúndu. Með þessu er slydda en snjókoma til fjalla. Búast má við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum, einkum á fjallvegum en viðvörunin verður í gildi fram til klukkan eitt.
Á Suðausturlandi stendur vestan stormur fram til klukkan sex síðdegis. Þar er spáð 18 til 23 metrum á sekúndu og í hviðum gæti vindhraðinn farið yfir 35 metra. Hvassast verður við Öræfajökul og geta aðstæður orðið hættulegar fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.