Lífið

Richard Lewis er látinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Richard Lewis var 76 ára gamall.
Richard Lewis var 76 ára gamall. Getty/Emily Berl

Leikarinn og grínistinn Richard Lewis, sem er hvað þekktastur þessa dagana fyrir leik sinn í þáttunum Curb Your Enthusiasm, er látinn. Hann var 76 ára gamall og er sagður hafa látist á heimili sínu í Los Angeles í gærkvöldi eftir að hann fékk hjartaáfall.

Lewis opinberaði í apríl í fyrra að hann hefði greinst með Parkinson‘s. Jeff Abraham, kynningarfulltrúi Lewis, staðfesti andlátið í kvöld.

Lewis naut mikillar frægðar vestanhafs vegna uppistands síns í gegnum árin, þar sem hann var duglegur við að gera grín að sjálfum sér. Þá lék hann í myndum eins og Robin Hood: Men in Tights, eftir Mel Brooks, og í þáttum eins og Curb Your Entusiasm og Daddy Dearest.

Larry David, sem gerði Curb, sagði í yfirlýsingu að hann og Lewis hefðu fæðst með þriggja daga millibili á sama sjúkrahúsinu. Mest alla ævi hans hefði Lewis verið sér sem bróðir.

„Hann hafði þá sjaldgæfu blöndu að vera bæði fyndnasta manneskjan og sú ljúfasta. En í dag lét hann mig fara að gráta og ég mun aldrei fyrirgefa honum það.“

Hann hefur einnig barist við fíkn sem endaði með ferð á sjúkrahús árið 1991. Sú ferð leiddi til þess að hann fór í afvötnun, samkvæmt frétt Hollywood Reporter, og hefur hann talað opinberlega um baráttu sína við fíknina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×