Sport

Meistararnir í Chiefs gefa eig­anda sínum fall­ein­kunn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Travis Kelce og félagar í Kansas City Chiefs eru ekki sáttir með eiganda félagsins.
 Travis Kelce og félagar í Kansas City Chiefs eru ekki sáttir með eiganda félagsins. Getty/Luke Hales

Kansas City Chiefs hefur unnið Ofurskálina tvö ár í röð en félagið kom engu að síður skelfilega út úr nýrri leikmannakönnun NFL-deildarinnar.

Leikmenn úr öllum 32 liðunum svöruðu spurningum um félagið sitt hvað varðar aðstöðu, ferðalög, þjálfara, utanumhald, þjónustu við fjölskyldumeðlimi, matsalinn, æfingasalinn, styrktarþjálfara og allt mögulegt sem félagið ber ábyrgð á að sé í lagi. Alls var spurt út í ellefu þætti og alls tóku 1.700 leikmenn þátt í þessari árlegu könnun.

Meistararnir í Chiefs enduðu með næstverstu einkunnina af öllum liðum deildarinnar. Það var aðeins Washington Commanders sem endaði neðar.

JC Tretter, forseti leikmannasamtakanna, sagði leikmenn Chiefs vera mjög ósátta með aðgerðaleysi eiganda félagsins.

Hann sagði meðal annars að félagið hafi ekki staðið við loforð sitt um að taka búningsklefana í gegn en þeir eru komnir vel til ára sinn á Arrowhead leikvanginum. Leikvangurinn þarf almennt á uppfærslu að halda enda einn sá elsti í deildinni.

Það var hins vegar ekki staðið við það loforð að taka búningsklefann í gegn og ástæðan sem var gefin var að liðið hafi farið of langt í úrslitakeppninni og því hafi ekki verið tími til að fara í framkvæmdir.

„Ég held að það sé mikill pirringur í klefanum. Leikmennirnir segja: Við höldum áfram að vinna Super Bowl leiki en það skilar sér ekkert til okkar. Það er ekkert forgangi hvað varðar að gera líf okkar betra,“ hafði JC Tretter eftir leikmönnum Chiefs.

Það skal þó tekið fram að ekki var þjálfaraeinkunnin að draga Chiefs liðið niður því Andy Reid þjálfari fékk hæstu einkunn af öllum þjálfurum.

Bestu heildareinkunn liða frá leikmönnum fengu lið Miami Dolphins og Minnesota Vikings. Þau voru líka í efstu sætunum árið á undan en þá voru Víkingarnir aftur á móti í fyrsta sætinu.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×