Sport

Tom Brady er fljótari 46 ára en þegar hann var 22 ára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Brady er einn besti íþróttamaður sögunnar og líklegast sá besti sem hefur spilað í NFL.
Tom Brady er einn besti íþróttamaður sögunnar og líklegast sá besti sem hefur spilað í NFL. Getty/Axelle/Bauer-Griffin

Ein af frægustu sögum NFL-deildarinnar er sú af Tom Brady og nýliðvalinu. Brady er að flestum talinn besti leikmaðurinn í sögu NFL-deildarinnar en það höfðu fáir trú á honum í nýliðavalinu árið 2000.

Á endanum voru 198 leikmenn valdir á undan Brady í þessu nýliðavali þar af sex leikstjórnendur. Brady kom ekki vel út úr líkamlegum mælingum eins og spretthlaupi, stökkkrafti og öðru slíku. Við það misstu margir trú á getu hans að spila í hinni hörðu og líkamlega krefjandi NFL-deild.

New England Patriots veðjaði hins vegar á hann og Brady stóðst síðan heldur betur prófið þegar aðalleikstjórnandi liðsins meiddist.

Brady leit ekki til baka eftir það og fór langt á vinnusemi, keppnishörku, yfirsýn og útsjónarsemi. Hann spilaði alls í 23 tímabil í NFL og vann sjö meistaratitla eða fleiri en nokkur annar leikmaður í sögunni.

Brady hætti eftir 2022 tímabilið og á næsta tímabili mun hann lýsa leikjum í sjónvarpi.

Á dögunum prófaði Brady, nú 46 ára gamall, að hlaupa fræga spretthlaupið í nýliðamælingunum fyrir 24 árum síðan. Hann hljóp aftur þessa 40 jarda eða rúma 36 metra.

Þar kom í ljós að Brady er fljótari 46 ára en þegar hann var 22 ára. Hér fyrir neðan má skemmtilegan samanburð á þessum tveimur sprettum hans. Fletta til að sjá sprettina tvo hlið við hlið.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×