Sport

Tárvotur Kelce til­kynnti að skórnir væru farnir á hilluna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jason Kelce leyfði tilfinningunum að streyma fram er hann tilkynnti að skórnir væru farnir upp í hillu.
Jason Kelce leyfði tilfinningunum að streyma fram er hann tilkynnti að skórnir væru farnir upp í hillu. Tim Nwachukwu/Getty Images

Jason Kelce, sóknarlínumaður Philadelphia Eagles, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir þrettán ára langan feril með Örnunum.

Hinn 36 ára gamli Kelce lék allan sinn feril í NFL-deildinni með Philadelphia Eagles. Hann var hluti af liðinu þegar Ernirnir unnu sína fyrstu Ofurskál árið 2018 og fór aftur með liðinu í úrslitaleikinn árið 2023. Hann spilaði sem það sem á ensku heitir „center,“ en það er leikmaðurinn sem réttir leikstjórnandanum boltann í upphafi hvers kerfis.

Hann var valinn af Philadelphia Eagles í sjöttu umferð nýliðavalsins árið 2011, en er nú talinn einn af bestu sóknarlínumönnum sögunnar.

Það er óhætt að segja að tilfinningarnar hafi borið Kelce ofurliði þegar hann tilkynnti það að skórnir væru farnir á hilluna. Kelce gat með engu móti haldið aftur að tárunum þegar hann hóf rétt um fjörutíu mínútna langa ræðu þar sem hann þurfti oft og tíðum að stoppa til að leyfa tilfinningunum að streyma fram.

Á þrettán ára löngum NFL-ferli vann Kelce Ofurskálina einu sinni og sex sinnum var hann valinn í lið tímabilsins.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×