Meðal annars í Herkastalanum í Kirkjustræti þar sem rekið er gistihúsið Kastali Guesthouse.
Samkvæmt heimildum fréttastofu var gestum á gistihúsinu vísað út úr byggingunni sem hefur leyfi fyrir 125 gestum. Það er í eigu Davíðs Viðarssonar sem komist hefur í fréttir undanfarnar vikur og mánuði vegna fyrirtækja sinna Vy-þrifa, Pho Víetnam og Wok On.
Veistu meira um málið? Sendu okkur línu á ritstjorn@visir.is.

Í tilkynningu frá lögreglu seint á fimmta tímanum kemur fram að lögreglan standi nú fyrir umfangsmiklum aðgerðum í umdæminu og utan þess vegna rökstudds gruns um mansal, peningaþvætti, brotum á atvinnuréttindum útlendinga og gruns um skipulagða brotastarfsemi. Aðgerðirnar hafi hafist fyrir hádegi og muni standa yfir fram eftir degi. Í þeim felist m.a. að ráðist er í húsleitir á fjölmörgum stöðum.

Aðgerðirnar eru unnar í samvinnu við lögregluliðin á Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra, embætti ríkislögreglustjóra, Tollgæsluna, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, ASÍ, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, barnaverndaryfirvöld í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, félagsþjónustuna í Kópavogi og Hafnarfirði, heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Bjarkarhlíð.
Upphaf málsins má rekja til þess að heilbrigðiseftirlitið fékk ábendingu sem leiddi til þess að ólögleg matvælageymsla fannst í kjallara í Sóltúni í Reykjavík. Í kjölfarið fór eftirlitið í óboðnar heimsóknir á nokkra veitingastaði Pho Víetnam í Reykjavík og fengu tveir þeirra falleinkunn eftirlitsins.
Meðal þess sem fannst í matvælageymslunni voru dýnur og uppsett tjald. Komið hefur fram að hluti af rannsókn lögreglu snýr að meintu mansali.
Hvorki næst í Kastali Guest House né Reykjavík Downtown Hostel sem Davíð rekur við Skólavörðustíg 42 fyrir ofan Pho Víetnam. Þá er útibú Pho Víetnam á Suðurlandsbraut lokað en það er allajafna opið á þessum tíma.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn miðlægu rannsóknardeildar lögreglu vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Von sé á tilkynningu vegna málsins. Þá barst fréttastofu ábending að lögregla hefði lokað starfsemi Wok On í Krónunni á Akureyri á þriðja tímanum í dag.
Fram kemur á heimasíðu Wok On að allir staðir keðjunnar séu lokaðir.
Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi lögreglu, segir ekki tímabært að upplýsa hve margir hafi verið handteknir í aðgerðunum.
Eldjárn Árnason lögmaður, sem talað hefur máli Davíðs Viðarssonar lögmanns þegar matvælalagerinn í Sóltúni fannst, segist ekki geta tjáð sig um málið.
Uppfært klukkan 16:50 með tilkynningu lögreglu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stendur nú fyrir umfangsmiklum aðgerðum í umdæminu og utan þess vegna rökstudds gruns um mansal, peningaþvætti, brotum á atvinnuréttindum útlendinga og gruns um skipulagða brotastarfsemi. Aðgerðirnar hófust fyrir hádegi og munu standa yfir fram eftir degi, en í þeim felst m.a. að ráðist er í húsleitir á fjölmörgum stöðum.
Aðgerðirnar eru unnar í samvinnu við lögregluliðin á Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra, embætti ríkislögreglustjóra, Tollgæsluna, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, ASÍ, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, barnaverndaryfirvöld í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, félagsþjónustuna í Kópavogi og Hafnarfirði, heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Bjarkarhlíð.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Veistu meira um málið? Vísir tekur við öllum ábendingum á netfangið ritstjorn@visir.is eða í tölvupósti á einstaka blaðamenn. Fullum trúnaði er heitið.