Sex sitja í gæsluvarðhaldi þar á meðal Davíð Viðarsson. Þrír karlar og þrjár konur. Fram hefur komið í máli Gríms að rökstuddur grunur sé hjá lögreglu um vinnumansal, peningaþvætti og skipulagða glæpastarfsemi.
Lögreglan blés til umfangsmikilla aðgerða í liðinni viku þar sem húsleit var gerð á 25 stöðum. Fíkniefnahundur var notaður við aðgerðirnar en engin fíkniefni fundust að sögn Gríms. Heldur ekki búnaður til framleiðslu eða neitt slíkt.
Þá voru tveir fulltrúar DEA, bandarísku fíkniefnalögreglunnar, með í för. Grímur segir að sá hluti rannsóknarinnar sem snýr að fíkniefnamisferli sé enn opinn.
Talið er að Davíð hafi þegið milljónir króna fyrir að koma fólki hingað til landsins og útvegað því dvalarleyfi á grundvelli sérfræðikunnáttu fólksins. Það hafi svo starfað helst við ræstingar og veitingasölu.
Davíð er eigandi Pho Víetnam veitingastaðanna og keypti í janúar Wok On veitingahúsakeðjuna af Kristjáni Ólafi Sigríðarsyni. Kristján Ólafur hefur ekkert viljað tjá sig um söluverðið þegar fréttastofa leitað til hans í síðustu viku.