Í dómi Héraðsdóms Reykjaness, sem kveðinn var upp í gær segir að maðurinn hafi verið ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 5.febrúar 2024, staðið að innflutningi á samtals 9.990 grömmum af maríhúana [sic] ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.
Hann hafi flutt efnin til Íslands sem farþegi með flugi frá Stokkhólmi í Svíþjóð til Keflavíkurflugvallar, falin í farangri.
Maðurinn hafi mætt við þingfestingu málsins í gær, játað brot sitt skýlaust og samþykkt upptökukröfu ákæruvaldsins á öllum kílóunum tíu.
Við ákvörðun refsingar hafi verið litið til þess að ekki yrði séð að maðurinn væri eigandi efnanna heldur hefði hann samþykkt að flytja þau inn gegn greiðslu.
Á hinn bóginn verði ekki fram hjá því litið að maðurinn flutti talsvert magn af marijúana til landsins ætlað til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.
Refsing mannsins þyki hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Fullnustu sjö mánaða af refsingunni skuli frestað og hún skuli falla niður að liðnum þremur árum, haldi maðurinn almennt skilorð.
Þá var manninum gert að greiða 1.294.453 krónur í sakarkostnað, þar með talda 1.192.880 króna þóknun skipaðs verjanda síns.