Sport

Einn sá besti í NFL setur skóna upp á hillu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það ráða fáir við Aaron Donald og flestir leikstjórnendur hafa óttast hann undanfarin áratug.
Það ráða fáir við Aaron Donald og flestir leikstjórnendur hafa óttast hann undanfarin áratug. Getty/Ryan Kang

Varnartröllið Aaron Donald hefur spilað sinn síðasta leik í NFL-deildinni.

Hinn 32 ára gamli Donald gaf það út í dag að skórnir færu upp á hillu og hann yrði því ekki með Los Angeles Rams á komandi tímabili.

Donald varð NFL-meistari með Rams liðinu árið 2022.

„Ég hef gefið allt mitt á fótboltavellinum, bæði andlega og líkamlega. Ég hef helgað mig alla 365 daga ársins til að verða eins góður leikmaður og ég gat orðið,“ sagði Aaron Donald.

Hann var líka frábær. Þrisvar sinnum var Donald kjörinn besti varnarmaður deildarinnar og átta sinnum var hann valinn í úrvalslið ársins. Leikstjórnendur deildarinnar hafa óttast hann í áratug en geta nú andað léttar.

Donald náði 111 leikstjórnendafellum á ferlinum og alls tæklaði hann mótherjana fimm hundruð sinnum á tíu ára ferli sínum sem leikmaður Rams.

„Það eru ekki margir sem fá tækifæri til að vinna Super Bowl og klára ferilinn hjá sama félagi og þeir byrjuðu hjá. Því hef ég aldrei tekið sem sjálfsögðum hlut,“ sagði Donald.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×