Innlent

„Vinnu­brögðin eru rusl og ykkur til skammar“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Andri segir vinnubrögð Viðskiptaráðs vera þeim til skammar.
Andri segir vinnubrögð Viðskiptaráðs vera þeim til skammar. Vísir/Samsett

Andri Snær Magnason fer ófögrum orðum um Viðskiptaráð Íslands og segir starfsmenn þess „kosta 130 milljónir til að vinna gegn menningu.“ Hann segir jafnframt peningunum sem fyrirtæki borga til að reka Viðskiptaráð vera betur varið í að styrkja höfunda.

Þetta segir hann í samtali við yfirhagfræðing Viðskiptaráðs Íslands á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, í dag. Gunnar birti færslu á miðilinn í gær þar sem hann veltir fyrir sér áformum um hækkun listamannalauna í samráðsgátt. Með færslunni birti hann graf sem sýnir að Ísland sé með ein hæstu opinberu útgjöld til menningarmála á mann í Evrópu.

Andri segir útreikning Gunnars beinlínis rangan en Gunnar er ósammála því. „Þarna eru gögnin eins og þau koma beint af kúnni. Ekkert land ver hærra hlutfalli opinberra útgjalda í mennningarmál, íþróttir og trúmál,“ segir Gunnar og spyr hvort „virkilega sé óhugsandi að málaflokkurinn sé vel fjármagnaður og það megi forgangsraða innan hans?“

Andri Snær segir vinnubrögð Viðskiptaráðs vera forkastanleg og að það hafi „sullað“ saman íþróttum, trúmálum og menningu án nægs rökstuðnings.

„Á bak við ykkur standa stærstu fyrirtæki landsins - finnst þeim of mikil menning eða æskulýðsstarf?“ spyr Andri Gunnar.

Andri segir framsetningu Viðskiptaráðs á gögnunum setja íþróttir og trúmál undir menningu í viðleitni til að ýkja umfang menningar til þess eins að grafa undan sjálfstæðu listafólki.

„Vinnubrögðin eru rusl og ykkur til skammar. Stærstu fyrirtæki landsins eru ekki svona miklir plebbar,“ segir Andri í einni færslunni.

Gunnar segir framsetninguna hins vegar leiðrétta fyrir verðlagsáhrifum sem dragi annars úr umfangi útgjaldanna og sýnir graf af vef EUROSTAT sem sýnir að Ísland verji hærra hlutfalli útgjalda til menningarmála en allar Evrópuþjóðir.

Hann segir málið vera einfalt. „Þakið lekur og heimilið er rekið á yfirdrætti. Í slíkum aðstæðum myndu engum skynsömum manni detta í hug að rölta niður í Gallerí fold og kaupa sér Kjarval verk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×