Meðfylgjandi myndir fann Hlynur Steinsson starfsmaður Sundhallarinnar fyrir tilviljun en þær eru teknar á árunum 1975 til 2000 og spanna því rúman aldarfjórðung í s0gu byggingarinnar.
Myndirnar voru teknar af starfsfólki sundlaugarinnar á tækifærisdögum, afmælisdögum sundlaugarinnar og við önnur tilefni, eins og sundleikfimi og matarpásur.

„Ég er að vinna þarna í hlutastafi og var að grúska í kjallaranum og rakst á þessi albúm með fullt af ljósmyndum og póstkortum,“ segir Hlynur í samtali við Vísi.

„Og það virðist sem að þær hafi hálfpartinn gleymst, það voru komnar smá rakaskemmdir í þetta og ryk. Þannig að mér fannst réttast að taka þetta með heim og skoða þetta betur og skanna inn til að þetta myndi ekki glatast. Ég hafði svo samband við Ljósmyndasafn Reykjavíkur til að athuga hvort þau hefðu ekki áhuga á að varðveita þetta, sem þau gerðu, og ætla líklegast að taka þessar myndir að sér,“ segir Hlynur jafnframt en Drífa Magnúsdóttir forstöðumaður Sundhallarinnar veitti Vísi góðfúslegt leyfi fyrir birtingu á myndunum.
„Þetta er mjög flott samansafn af myndum og póstkortum. Þetta virðist hafa verið ansi þéttur hópur sem vann þarna saman.“










