Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Úkraínu á morgun í hreinum úrslitaleik um sæti á Evrópumótinu sem fram fer í Þýskalandi í sumar. Aðspurður hvað þjálfari Íslands væri að hugsa um degi fyrir svona mikilvægan leik þá hló Åge létt og svaraði svo:
„Öll smáatriðin sem ég er ekki ánægður með á þessu augnabliki. Við erum með fund þar sem við förum yfir það sem við höfum gert.“
„Við tökum allar æfingar upp með dróna og myndavélar á leikvangnum í dag. Við höfum möguleika á að fara yfir æfinguna og erum alltaf að skoða hvað við getum gert betur.“
Er stress í leikmannahópnum?
„Ég held ekki. Við verðum að skapa afslappað andrúmsloft en að sama skapi vera tilbúnir þegar leikur hefst. Ef það er of mikið (stress) getur það farið í hina áttina, þá frýs maður á staðnum og gerir ekkert gagn.“
„Þetta er risastórt tækifæri fyrir okkur. Við verðum að vera ánægðir með að vera komnir hingað, njóta augnabliksins og spila,“ sagði Åge Hareide að endingu að þessu sinni.

Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 26. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.