Innlent

Flestar kvartanir varða fram­komu vagn­stjóra og aksturs­lag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ábendingum til Strætó fjölgaði mjög milli ára.
Ábendingum til Strætó fjölgaði mjög milli ára. Vísir/Vilhelm

Strætó bs. bárust 3.493 ábendingar á síðasta ári og fjölgaði þeim um þrjú prósent á milli ára. Kvartanir voru 2.369 árið 2021, en 3.405 árið 2022 og fjölgaði þeim þá mikið árið 2022. 

Þetta kemur fram í kynningu um öryggis- og gæðamál sem lögð var fram á fundi stjórnar Strætó 15. mars síðastliðinn.

Þar segir að flestar ábendingarnar varði framkomu vagnstjóra, aksturslag, það að ekki hafi verið stöðvað á biðstöð eða að vagninn hafi ekki komið yfir höfuð. Verið sé að skoða verklag og hverju sé hægt að breyta til að draga úr ábendingum.

Stefnt sé á að halda þjónustunámskeið, efna til þjónustuátaks og ráðast í „hulduheimsóknir“.

Fjöldi ábendinga sem bárust Strætó á árunum 2021 til 2023. Strætó

Slysum á farþegum virðist hafa fækkað nokkuð en þau voru 24 árið 2023, 39 árið 2022 og 28 árið 2021. Vinnuslys á starfsmönnum voru fjórtán í fyrra, samanborið við níu árið 2022, átta árið 2021, sex árið 2020 og ellefu árið 2019.

Þá urðu 152 tjón árið 2023, þar af 57 tryggingatjón, samanborið við 146 tjón árið 2022 og 147 tjón árið 2021. Virðist þeim fara fækkandi ef horft er lengra aftur en þau voru 158 árið 2020 og 186 árið 2019.

Komið er inn á það við könnun á heilsu og vellíðan starfsmanna hafi nokkrir minnst á það að þeir upplifðu sig ekki örugga við störf, vegna ógnandi hegðunar farþega.

Uppfært: Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar kom fram að fjölgun ábendinga milli ára hafi verið 47 prósent. Hið rétta er að fjölgunin hafi verið þrjú prósent, en hún var mun meiri árið 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×