Innlent

Reyndu að stela hrað­banka með því að aka lyftara á hann

Lovísa Arnardóttir skrifar
Hraðbankinn er illa farinn eftir tilraunina
Hraðbankinn er illa farinn eftir tilraunina Vísir/Einar

Lyftara var ekið á hraðbanka á Völlunum í Hafnarfirði í nótt í tilraun til að stela honum. Um er að ræða aðra tilraunina til að stela hraðbanka með vinnuvél á stuttum tíma. Sú fyrri var gerð í Breiðholti aðfaranótt laugardagsins. 

Helgi Gunnarsson lögreglufulltrúi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í Hafnarfirði staðfestir tilraunina og segir málið til rannsóknar hjá þeim. Hraðbankinn er í eigu Euronet. Fyrst var fjallað um málið á vef RÚV.

„Þeir hafa stolið þarna skotbómulyftara og þeir hafa reynt að taka hraðbanka á Völlunum,“ segir Helgi. Hann segir að lögreglan hafi engan sérstakan grunaðan og að þau muni fara yfir myndefni í rannsókn sinni.

Hann segir aðra tilraun hafa verið gerða í fyrra til að ræna hraðbanka í Hafnarfirði. 

„Þeir reyndu að binda hann upp aftan í pallbíl en pallbíllinn endaði upp á grjóti. Það var svona frekar klaufalegt hjá þeim,“ segir Helgi.

Önnur tilraun um helgina

Í frétt RÚV kemur fram að önnur tilraun hafi verið gerð í Breiðholti um helgina. Þar tókst þjófunum að spenna ysta lagið af hraðbankanum en komust ekki lengra en það.

„Þetta mislukkaðist hérna hjá þeim en er vel þekkt erlendis. Þá koma þeir með gröfur og moka þessu upp á vörubílspall og aka burt.“

Helgi segir bankana gera ýmislegt til að koma í veg fyrir að hægt sé að nota peninga úr hraðbönkum sem er stolið. Í Hollandi sprautist lím yfir peningana og í Grikklandi sprautist litur yfir þá.


Tengdar fréttir

Hrina hraðbankaþjófnaða á Norður-Írlandi

Átta hraðbönkum hefur verið stolið það sem af er ári í Londonderry-héraði Norður-Írlands. Í þetta sinn var hraðbanka við bensínstöð í bænum Dungiven.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×