Snjó hefur kyngt niður víða um landið síðustu daga og er snjóflóðahættan ekki bundin við eitt landsvæði. Meiri hætta er þó talin á snjóflóðum á Austfjörðum.
„Á Austfjörðum varð hann sérstaklega óstöðugur í prófum í gær, og þess vegna var spáin þar sett upp á rauðan. En í rauninni er þessi hætta til staðar á öllu norðanverðu landinu,“ segir Harpa Grímsdóttir ofanflóðasérfræðingur á Veðurstofunni.
Hún segir snjóflóðahættuna ekki ógna byggð að svo stöddu. Þá eigi að draga úr veðri á Austurlandi í dag.
„Það er spáð góðu veðri næstu daga og þá getur verið talsverð hætta á því að fólk á ferð til fjalla seti af stað snjóflóð ef það ferðast um brattar brekkur. Enda er þessi snjór ansi óstöðugur, sem er kominn.“
Tilmælin eru því skýr; fylgjast með veðurspá og korti vegagerðarinnar og að forðast það að ferðast um brattar brekkur til fjalla.
Nálgast má nánari upplýsingar og snjóflóðaspá fyrir valin svæði á vef Veðurstofunnar.