Erlent

Rowling ekki sótt til saka fyrir að kalla trans konur „karl­menn“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rowling er þekktust fyrir að skrifa bækurnar um Harry Potter.
Rowling er þekktust fyrir að skrifa bækurnar um Harry Potter. Getty

Lögregluyfirvöld í Skotlandi segja rithöfundinn JK Rowling ekki hafa brotið lög þegar hún kallaði trans konur „karlmenn“ á X/Twitter. Rowling var að gagnrýna nýja haturslöggjöf sem tók gildi á mánudag og sagði hana aðför að tjáningarfrelsinu í Skotlandi.

Löggjöfin kveður á um að það sé glæpur að láta niðrandi ummæli falla um fólk á grundvelli aldurs, fötlunar, trúar, kynhneigðar og kynvitundar. Samkvæmt umfjöllun Guardian hafa lögregluyfirvöldum á Skotlandi þegar borist um 3.000 kvartanir á grundvelli nýju laganna, frá því að þau tóku gildi á mánudag.

Rowling, sem hefur löngum gagnrýnt að réttindabarátta trans fólks hafi falið í sér aðför að réttindum stúlkna og kvenna, var harðorð í garð löggjafarinnar á X/Twitter og sagði tjáningarfrelsið dautt ef það mætti ekki lengur tala um líffræðilegt kyn fólks.

Hún skoraði á lögregluyfirvöld að handtaka sig fyrir að kalla trans konur sem hafa verið dæmdar fyrir kynferðisbrot og trans aktívista „karlmenn“ og hét því að endurtaka opinberlega orð hverrar konu sem væri sótt til saka á grundvelli laganna fyrir að „kalla karlmann karlmann“.

Lögregluyfirvöld staðfestu í gær að þeim hefðu borist kvartanir vegna tísta Rowling en að þau brytu ekki í bága við lögin og krefðust ekki frekari aðgerða af þeirra hálfu. Rowling fagnaði þessu á X/Twitter og sagði fregnirnar góð tíðindi fyrir allar þær konur á Skotlandi sem vildu tjá sig um raunveruleika og mikilvægi líffræðilegs kyns.

Humza Yousaf, æðsti ráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, hefur varið löggjöfina og segir hana ekki munu skerða málfrelsi heldur vernda fólk fyrir flóðbylgju haturs. Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, hefur hins vegar ítrekað að það ætti ekki að vera glæpur að tjá sig um líffræðilegt kyn.

Robbie de Santos, framkvæmdastjóri herferða og mannréttinda hjá baráttusamtökunum Stonewall, segir málið hins vegar byggt á misskilningi; lögin snúist ekki um að gera það ólöglegt að nota röng fornöfn eða vísa til líffræðilegs kyns.

Gagnrýni á lögin á þessum forsendum sé aðeins til þess fallin að grafa undan tilgangi laganna, sem sé að vernda fólk fyrir raunverulegu ofbeldi. Með lagasetningunni sé aðeins verið að útvíkka lagalega vernd á grundvelli trúar og kynþáttar þannig að hún nái einnig yfir kynhneigð, kynvitund, aldur og fötlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×