Lífið

Var búinn að hlaupa af sér hornin ó­líkt öðrum undrabörnum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Víkingur Heiðar er einn hæfileikaríkasti tónlistarmaður landsins.
Víkingur Heiðar er einn hæfileikaríkasti tónlistarmaður landsins.

Víkingur Heiðar Ólafsson hefur fyrir löngu skipað sér í flokk fremstu píanista heims og hefur á síðustu árum haft mikil áhrif á tónlistarheiminn.

Edda Andrésdóttir settist niður með Víkingi á öðrum degi páska og ræddi við hann við flygilinn í Hörpunni.

Víkingur var aðeins átján ára þegar hann byrjaði nám við Julliard skóla í New York og síðan þá hefur hann verið áberandi í sinni tónlistarsenu um allan heim. Edda fer yfir ferilinn í einlægu spjalli við Víking en í þættinum kom til að mynda fram að þegar hann byrjaði í listaháskólanum Julliard í New York hafi hann snögglega gert sér grein fyrir því að hann væri ekki á sama stað og samnemendur sínir.

Jafnaldrar hans víðs vegar um heiminn hafi flestallir komið út til New York af nokkuð ströngu heimili og í raun aðeins einbeitt sér að tónlistinni alla sína ævi. Víkingur lýsti því að hafa sjálfur fengið nokkuð eðlilegt uppeldi og verið búinn að hlaupa af sér hornin þegar hann mætti út til náms. 

Aðrir hafi fljótlega keypt sér Playstation tölvu og farið mikið út á lífið. Hann hafi nú þegar fengið útrás fyrir öllu slíku heima í Hlíðunum í Reykjavík. Hann var kominn á þann stað að vera tilbúinn að einbeita sér algjörlega að tónlistinni.

Hættur að lesa dóma

Edda spurði Víking hvernig gagnrýni færi í hann.

„Ég les ekki dómana sjálfur. Það er svo mikið af þeim og í hverri einustu viku koma nýir fram. Níutíu prósent af þeim eru svakalega jákvæðir. Svo eru kannski fimm prósent mitt á milli og svo eru kannski fimm prósent sem eru alls ekki jákvæðir. Og sumir bara þola mig ekki,“ segir Víkingur og heldur áfram.

„Það fyndna við þetta er að þegar ég fæ svona frábæra dóma þá gleður það mig örstutt en síðan er það búið hálftíma síðar, jafnvel mínútu síðar. En ef einhver segir að ég sé algjörlega ömurlegur og ofmetin píanisti, eitthvað sem þeir segja í Danmörku til dæmis. Þar hata þeir mig og tala alltaf um mig sem „Islændingen“. Ef þetta kemur til manns þá einhvern veginn lifir það með manni. Við erum einhvern veginn þannig dýrategund að við þráum það að vera elskuð. Málið er það að ég er sjaldan ánægður sjálfur eftir tónleika, ég er svo mikill gagnrýnandi á sjálfan mig.“

Hann segist þó vera mikill stuðningsmaður gagnrýnenda, skilja mikilvægi þeirra - jafnvel þeirra sem gefi ekki mikið fyrir spilamennsku hans.

Klippa: Hættur að lesa dóma um sjálfan sig

Tengdar fréttir

Víkingur Heiðar á smá­skrif­borðs­tón­leikum

Píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson er nýjasti gestur Tiny Desk Concert tónleikaþáttaraðarinnar, þar sem hann spilar ekki á stóran flygil fyrir fullri tónleikahöll, heldur á lítið píanó bak við lítið skrifborð.

Víkingur tryllti og stillti

Ég sá brandara á Facebook nýlega. Tveir gamlir karlar standa þétt saman og annar þeirra heldur á mótmælaskilti. Undir myndinni má lesa: „Verkfall sembalstillingamanna.“ Og á skiltinu stendur: „Við höfum verið samningslausir frá 1782.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×