Amazon kynnti verslunarkeðjuna Amazon Go til sögunnar árið 2016. Verslunarkeðjan var sérstök að því leytinu til að hún var algjörlega laus við allar raðir eða greiðslukassa.
Í verslunum keðjunnar eru skannar sem skynja hvaða vörur viðskiptavinir taka með sér heim. Við komu í búðina skanna viðskiptavinir smáforrit í farsíma sínum. Því næst er hægt að ganga um búðina og velja vörur á hefðbundinn hátt. Þegar búðin er yfirgefin er viðkomandi svo rukkaður fyrir vörurnar sem hafðar eru meðferðis í gegnum Amazon reikning. Þessi tækni var sögð keyrð af gervigreind.
Nú hefur tæknirisinn ákveðið að breyta um stefnu og kynna til leiks einhvers konar snjallkörfur, sem greina hvaða vörur viðskiptavinir setja í þær. Ástæðan er sú að gervigreindin virkaði ekki sem skyldi.
Frá þessu greinir tæknimiðillinn The Information, sem hefur eftir heimildarmanni sínum að um það bil eitt þúsund Indverjar hafi unnið við það að fara yfir hvaða vörur viðskiptavinir höfðu með sér úr verslununum.
Þeir hafi þurft að yfirfara sjötíu prósent allra viðskipta í verslununum en stjórnendur Amazon hafi stefnt að því að aðeins þyrfti að yfirfara fimm prósent viðskipta.
Amazon þverneitar
Í frétt Business Insider um málið segir að talsmaður Amazon hafi þvertekið fyrir fullyrðingar The Information í skriflegu svari til miðilsins.
Talsmaðurinn hafi sagt starfsmennina í Indlandi helst hafa unnið að því að þjálfa gervigreindartæknina sem lausnin byggir á. Þeir hafi þó í einhverjum tilvikum farið yfir viðskipti sem tæknin geti ekki sannreynt innkaup viðskiptavina með fullri vissu.