Erlent

Sóða­legum skila­boðum rignir yfir breska þing­menn

Samúel Karl Ólason skrifar
William Wragg er nokkuð háttsettur þingmaður Íhaldsflokksins en hann segist miður sín eftir að hann sendi símanúmer þingmanna, starfsmanna þingsins og blaðamanna til ókunnugs manns á Grindr.
William Wragg er nokkuð háttsettur þingmaður Íhaldsflokksins en hann segist miður sín eftir að hann sendi símanúmer þingmanna, starfsmanna þingsins og blaðamanna til ókunnugs manns á Grindr. Getty/Johnathan Nicholson

Háttsettur þingmaður í Íhaldsmannaflokki Bretlands hefur viðurkennt að senda ókunnugum aðila á stefnumótaforriti persónuupplýsingar þingmanna og annarra. William Wragg, umræddur þingmaður, lét símanúmar annarra þingmanna af hendi eftir að hann sendi nektarmyndir af sjálfum sér á óprútna aðila.

Wragg átti í samskiptum við mann á Grindr, sem er stefnumótaforrit ætlað samkynhneigðum. Eftir að Wragg sendi manninum viðkvæmar myndir af sér, sendi hann manninum einnig símanúmer annarra þingmanna, starfsmanna þeirra og blaðamanna.

Þetta fólk hefur svo í kjölfarið fengið óumbeðin daðursleg skilaboð frá aðilum sem kynna sig sem annað hvort Charlie eða Abi, samkvæmt frétt Times (Áskriftarvefur).

Í samtali við Times sagði Wragg að hann hafi átt í samskiptum við manninn á Grindr og þeir hafi skipst á myndum. Í kjölfarið hafi þeir ætlað að hittast en ekki hafi orðið af því. Í kjölfarið hafi maðurinn farið að biðja hann um símanúmer þingmanna og Wragg segist hafa verið óttasleginn vegna myndanna sem hann hafði sent.

„Ég hef sært fólk með því að vera duglaus. Ég var hræddur. Ég var lafhræddur. Ég er miður mín yfir því að máttleysi mitt hafi komið niður á öðru fólki,“ sagði Wragg.

Gareth Davies, fjármálaráðherra og þingmaður Íhaldsflokksins, var í viðtali á Sky News í morgun en þar vildi hann ekki segja hvort refsa ætti Wragg innan flokksins vegna málsins og sagði að hann hefði beðist afsökunar.

Politico sagði frá því í vikunni að minnst sex þingmenn, starfsmenn þeirra og blaðamenn hefðu fengið skilaboð frá ókunnugum aðilum í gegnum WhatsApp. Þessi skilaboð eru sögð hafa verið kynferðislegs eðlis og mjög keimlík. Sendandinn sagðist hafa hitt viðkomandi fyrir nokkrum árum og fylgdu skilaboðunum oft nektarmyndir. 

Þegar sendandinn átti að heita „Charlie“ fylgdi mynd af karlmanni. Ef hann hét „Abi“ var myndin af konu.

Í frétt Politico segir að skilaboðin sem fólk fékk bendi til þess að sendandinn viti mikið um skotmörk sín. Talið er að markmiðið hafi verið að plata fólkið til að senda viðkvæmar myndir af sér og kúga þau svo í kjölfarið.

Skilaboðin eru til rannnsóknar hjá lögreglunni í Bretlandi.

Uppfært: Fyrst stóð í fréttinni að umræddur þingmaður væri í Verkamannaflokkinum. Það er rangt og hefur verið leiðrétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×