Lífið

Súrsætur og elegant eftir­réttur

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Guðrún Ýr töfrar fram alls kyns girnilega rétti á vefsíðu sinni Döðlur og smjör.
Guðrún Ýr töfrar fram alls kyns girnilega rétti á vefsíðu sinni Döðlur og smjör.

Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir matarbloggari deildi ljúffengri uppskrift að súrsætum skyreftirrétti á vefsíðunni Döðlur og smjör. Berðu réttinn fram í fallegum glösum sem gerir það bæði þægilegt og elegant.

Skyr með hvítu súkkulaði og sítrónusmjöri – fyrir 6 –

Hráefni:

150 g LU kex

50 ml mjólk

100 g hvítt súkkulaði

1 tsk vanilludropar

500 g vanilluskyr

Aðferð:

Myljið kexið í matvinnsluvél eða í poka og með kökukefli. Dreifið í botn á sex skálum.

Setjið mjólk og súkkulaði saman í skál og bræðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði þangað til það er bráðið. Bætið vanilludropum saman við og leyfið kólna lítillega.

Setjið saman í skál súkkulaðiblönduna og skyrið og hrærið vel saman.

Gott er að hella í sprautupoka og þannig í glösin, hellið jafnt í glösin.

Setjið inn í kæli og kælið í 2-3 klst.

Sítrónusmjör

Hráefni:

40 g sítrónusafi

1 tsk sítrónubörkur

20 g smjör, við stofuhita

1 egg, við stofuhita

1 eggjarauða

55 g sykur

Aðferð:

Allt sett í blandara og blandað saman þangað til að öll hráefnin hafa blandast vel saman, það á það til að skilja sig í upphafi þá er bara að halda áfram að blanda þangað til allt er rennislétt.

Þá er blandan sett í pott á lágan hita og hrært í öðru hverju.

Eftir smá tíma fara að myndast þykkar búbblur sem segir til að það er byrjað að þykkna, hrærið aðeins og takið svo af hellunni og hellið í hreint ílát og leyfið að kólna.

Svisssneskur marengs

Hráefni:

2 eggjahvítur

½ tsk cream of tartar

100 g sykur

1 tsk vanilludropar

klípa af salti

Aðferð:

Öllu blandað saman í skál og sett yfir vatnsbað s.s. pott með vatni í miðlungshita.

Hitið þangað til að blandan er 71°c eða þangað til að þið getið sett dropa á puttann og nuddað saman og þið finnið ekki lengur sykurkorn.

Setjið þá í hrærivél og hrærið þangað til að marengsinn er orðinn stífþeyttur.

Þá er að taka taka skyrið úr kæli. Setjið rúma matskeið í hvert glas og dreifið úr með skeiðinni.

Setjið marengsinn í sprautupoka og sprautið yfir.

Til að gera hann extra fínan er hægt að nota brennara til að brenna hann aðeins.

Skreytið með bláberjum eða því sem ykkur finnst passa með.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.