Aron Guðmundsson skrifar frá Aachen í Þýskalandi.
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu leikur á morgun mikilvægan leik við Þýskaland í undankeppni EM 2025 á Tivoli leikvanginum í Aachen, heimavelli knattspyrnuliðsins Alemannia Aachen. Um er að ræða leik liðanna í 2.umferð undankeppninnar en bæði Ísland og Þýskaland unnu sína leiki í fyrstu umferð.

Rótgróið félag í kröggum
Alemannia Aachen er kannski ekki þekktasta þýska knattspyrnufélagið en er þó rótgróið félag sem hefur lengst af, undanfarna áratugi, spilað í þýsku B-deildinni.
Það er að segja allt þar til ársins 2012 þegar að félagið féll tvisvar sinnum á tveimur tímabilum og fann sig allt í einu svæðisdeild Vestur-Þýskalands þar sem að liðið hefur verið síðan þá.
Það í bland við fjárhagserfiðleika hefur gert félaginu erfitt fyrir í því verkefni sínu að rétta úr kútnum.
Hins vegar minnast stuðningsmenn Alemannia Aachen með hlýju tímabilsins 2003/2004 og 2004/2005. Fyrra tímabilið, þá sem B-deildar lið, komst Alemannia alla leið í úrslitaleik þýska bikarsins og lagði á leið sinni þangað stórveldi Bayern Munchen að velli auk annarra liða úr þýsku úrvalsdeildinni.

Lið Werder Bremen átti þó eftir að standa uppi sem þýskur bikarmeistari en það mætti í raun segja að Alemannia Aachen hafi verið hinn raunverulegi sigurvegari. Þar sem að Werder Bremen stóð einnig uppi sem Þýskalandsmeistari varð raunin sú að Alemannia Aachen, B-deildar liðið, hlaut eitt Evrópusæti Þýskalands.
Sögulegt einvígi við FH

Liðið tók þar með þátt í UEFA-bikarinn tímabilið 2004/2005 og það er þar sem tengingin við FH kemur inn. Liðin mættust í fyrstu umferð keppninnar.
FH, sem var á þessum tíma þjálfað af Ólafi Jóhannessyni, stóð uppi sem Íslandsmeistari þetta tímabil með leikmenn á borð við Alan Borgvadt, Emil Hallfreðsson, Heimi Guðjónsson, Atla Viðar Björnsson og Davíð Þór Viðarsson innanborðs. En Hafnfirðingarnir réðu ekkert við leikmenn Alemannia Aachen heima á Íslandi þar sem fyrri leikur liðanan fór fram Laugardalsvelli.
Eftir 5-1 tap heima náðu FH-ingar jafntefli úti í Þýskalandi. Alemannia Aachen fór lengra áfram í keppninni. Í raun alla leið í 32-liða úrslit en búið er að sjá til þess að einvígið við FH gleymist seint úr minni stuðningsmanna félagsins.
Hafnarfjörður og Alkmaar
Fyrir utan Tivoli-leikvanginn hér í Aachen, heimavöll Alemannia, má finna tvo æfingavelli sem bera báðir nafn með skírskotun í Evrópuævintýri Alemannia Aachen.
Annar völlurinn ber nafnið Alkmaar, í höfuðið á hollenska úrvalsdeildarliðinu AZ Alkmaar, sem Alemannia mætti einnig í Evrópukeppni umrætt tímabil. Hinn völlurinn ber nafnið Hafnarfjörður og vísar þar með í heimabæ FH, sem er jafnan nefnt FH Hafnarfjörður á erlendri grundu.

Heldur betur skemmtileg tilviljun en íslenska kvennalandsliðið æfir í dag á Tivoli-leikvanginum í námunda við æfingavellina tvo. Spurning er hins vegar sú hvort það hefði verið heimilislegra að æfa í Hafnarfirði?
Fyrir áhugasama má sjá helstu atriði úr fyrri leik FH og Alemannia Aachen hér fyrir neðan: