Páll ræddi fasteignamarkaðinn og framtíðarhorfur í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hann segir tölur um fasteignakaup seinar að berast. Eignir séu til dæmis seldar í janúar en að þinglýsing komi ekki fyrr en í mars eða apríl. Rauntölur séu seinar að berast.
Fyrstu tvo mánuði ársins hafi verið 1100 eignar sem seldust. Á sama tíma í fyrra hafi þær verið um 880. Enn fleiri eigi eftir að koma inn á markaðinn þegar uppkaup Þórkötlu klárast.
Miklar hækkanir
Hann segir að Húsnæði- og mannvirkjastofnun hafi sagt að í mars hafi verið 1.500 eignir á fasteignavef sem hafi verið teknar af vef. Það geti verið merki um að þær hafi verið seldar og sé helmingi meira en var í janúar. Þessar tölur hafi ekki verið birtar en það sé beðið eftir þeim.
„Fasteignasalar eru að upplifa miklu meiri læti núna en við gerðum í fyrra,“ segir Páll en viðurkennir þó að síðasta ár hafi verið lélegt.
Hann segir að markaðurinn hafi hækkað um tæp tvö prósent í febrúarmánuði og fjölbýli í kringum höfuðborgarsvæðið hafi hækkað um 6,7 prósent í febrúar. Bríet hafi keypt nýbyggingar fyrir Grindvíkinga en þeir 600 Grindvíkingar sem hafi óskað eftir því að Þórkatla fasteignafélag kaupi sig út eigi eftir að fara í þinglýsingu. Þannig það eigi enn eftir að fjölga sölunum.
„Við erum að sjá aukna sölu og hækkanir á markaði á fasteignaverði,“ segir Páll og að hann telji þessar hækkanir ekki góðar fréttir. Það sé betra þegar verðhækkanir séu í takt við hækkun launa og kaupmátt. Það sé fullkomið jafnvægi.
34 sérbýli byggð í fyrra
Páll segir stutt í að sérbýli verði lúxusvara. Það hafi verið byggð 34 einbýlishús í fyrra sem sé minnsta fjölgun slíkra bygginga frá því eftir seinni heimsstyrjöld. Fólkið sem fæddist á þeim tíma búi nú í einbýlishúsunum í Fossvogi og Garðabæ en það séu tafir á því að þau fari úr sínum eignum því þau finni ekkert sem henti í staðinn því kröfurnar séu öðruvísi, þau vilji til dæmis stóra stofu.
„Það er rosalega lítið byggt af sérbýli og sérbýlismarkaðurinn verður svona takmörkuð auðlind. Af því það er byggt svo lítið af þessu.“
Páll segir vanta meiri pening í hlutdeildarlánin en að vandamálið sé í framboði en ekki eftirspurn. Það hafi hann sagt í mörg ár. Hann segist vonast til þess að með nýjum borgarstjóra, Einari Þorsteinssyni, verði farið í nýtt átak.
„Það eru sjö þúsund eignir í byggingu núna á öllum byggingarstigum en 80 prósent af þeim er ekki komið af fokheldi,“ segir Páll og að þarna þurfi átak, ekki í eftirspurnarhliðinni.
Hann segir enn of erfitt að komast inn á fasteignamarkað. Nýir kaupendur séu um fjórðungur af kaupendum og fari hækkandi. Í hverjum árgangi fólks séu um fjögur til fimm þúsund manns og gert sé ráð fyrir því að af þeim fari um 2.500 inn á fasteignamarkað.